SR - SA Víkingar umfjöllun (báðir leikir)

Skautafélag Reykjavíkur og SA Víkingar áttust við á íslandsmótinu í íshokkí á föstudagskvöld. Leiknum lauk með sigri SR sem gerðu fimm mörk gegn fjórum mörkum SA Víkinga. 
Leikmenn beggja liða virtust nokkuð taugaspenntir á upphafsmínútunum enda mikið í húfi. Jafnræði var þó með liðunum en það voru SR-ingar sem komust yfir þegar rúmlega þrjár mínútur voru liðna með marki frá Gauta Þormóðssyni. Tíu mínútum síðar var Gauti aftur á ferðinni og staðan orðin 2 – 0 og þannig lauk lotunni.
Í annarri lotunni bætti Egill Þormóðsson stöðu SR-inga enn frekar og lengi leit út fyrir að SR-ingar færu inn í leikhlé með þriggja marka forskot. Stefán Hrafnsson sá hinsvegar til þess að svo varð ekki með marki á síðustu mínútu lotunnar.
Gunnar Darri Sigurðsson minnkaði svo muninn í eitt mark fyrir Víkinga strax í byrjun 3ju lotu og spenna komin í leikinn. SR-ingar áttu hinsvegar næstu tvö mörk og enn voru þeir Egill og Gauti Þormóðssynir á ferðinni. Norðanmenn gáfust hinsvegar ekki upp og minnkuðu muninn í eittmark aftur með mörkum frá fyrrnefndum Stefáni og Rúnari F. Rúnarssyni. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir síðustu fimm mínúturnar náðu þeir ekki að jafna og sigur SR-inga staðreynd.

Mörk/stoðsendingar SR:

Gauti Þormóðsson 3/0
Egill Þormóðsson 2/1
Björn Róbert Sigurðarson 0/1

Refsingar SR: 22 mínútur

Mörk/stoðsendingar SA Víkingar:

Stefán Hrafnsson 2/0
Gunnar Darri Sigurðsson 1/0
Rúnar F. Rúnarsson 1/0
Björn Már Jakobsson 0/1
Orri Blöndal 0/1

Refsingar SA Víkingar: 26 mínútur


Skautafélag Reykjavíkur og SA Víkingar áttust við á íslandsmótinu í íshokkí á laugardagskvöld. Leiknum lauk með sigri SA Víkinga sem gerðu sjö mörk gegn þremur mörkum SR-inga. Fyrir leikinn höfðu Víkingar tveggja stiga forskot á lið SR-inga en liðin berjast nú um hvort liðið hlýtur heimaleikjaréttinn í komandi úrslitakeppni.
Nokkur taugatitringur var í leikmönnum beggja liða á fyrstu mínútum leiksins enda mikið  undir. Liðin skiptust á að sækja í byrjun og nokkur góð marktækifæri voru á báða bóga en það voru Víkingar sem komust yfir um miðja lotu með marki frá Sigmundi Sveinssyni. Rúnar F. Rúnarsson kom síðan Víkingum í 0 – 2 áður en Egill Þormóðsson minnkaði muninn fyrir SR-inga á síðustu mínútu lotunnar. Önnur lota var rétt hafin þegar Víkingar komust í 1 – 3 eftir mark frá Jóni Benedikt Gíslasyni en skömmu síðar minnkaði Björn Róbert Sigurðarson muninn fyrir SR-inga. Fleiri mörk komu ekki í annarri lotu og staðan því 2 -3 og leikurinn í járnum. Á fyrstu þremur mínútum þriðju lotu náðu Víkingar að breyta stöðunni í 2 – 5 og staðan því orðin erfið fyrir heimamenn.  Víkingar höfðu svo yfirhöndina það sem eftir lifði lotunnar og varnarmaðurinn Ingólfur Elíasson bætti við tveimur mörkum undir lokin en á milli þeirra minnkaði Egill Þormóðsson muninn fyrir SR-inga.

Mörk/stoðsendingar SR:

Egill Þormóðsson 2/1
Björn Róbert Sigurðarson 1/0
Gauti Þormóðsson 0/2
Tómas Tjörvi Ómarsson 0/1

Refsingar SR: 100 mínútur.

Mörk/stoðsendingar SA Víkingar:

Sigmundur Sveinsson 2/0
Ingólfur Tryggvi Elíasson 2/0
Björn Már Jakobsson 1/2
Rúnar Freyr Rúnarsson 1/1
Jón Benedikt Gíslason 1/0
Andri Már Mikaelsson 0/2
Orri Blöndal 0/2
Sigurður Reynisson 0/1
Gunnar Darri Sigurðsson 0/1
Steinar Grettisson 0/1

Refsingar SA Víkingar: 28 mínútur.