SR - SA úrslit. Umfjöllun

SR-ingar fengu SA-menn tvisvar sinnum í heimsókn í Laugardalinn um nýliðna helgi. Greinilegt var á öllu að mikill hugur var í SA-mönnum eftir 4 - 2 sigur á SR-ingum helgina á undan og mættu SA-menn með þrjár fullskipaðar línur í leikina.
Fyrri leikurinn
Í fyrri leiknum sem fram fór á laugardagskvöldið var nokkuð jafnræði með liðunum, þó svo að SR-ingar sæktu heldur meira, í fyrsta þriðjungnum en hann sigruðu SR-ingar 2 -1 (14 - 7). Eftir aðeins 13 sekúndna leik í öðrum þriðjung náðu SA menn að jafna leikinn og segja má að norðanmenn hafi átt þann þriðjung. Þeir enduðu á að vinna hann 0 - 3 (5 - 12). Síðasti þriðjungurinn var líka að miklu leyti eign SA-manna sem unnu hann 1 - 2 (6 - 11) og þar með leikinn 3 - 6 (25 - 30). Athygli vakti hversu daufir gestgjafarnir voru á svellinu í þetta sinnið og virtust þeir hafa fá svör við leik gestanna. Segja má að í leikjum vetrarins hafi SR-ingar oftast nýtt sér þegar þeir voru manni eða mönnum fleiri á svellinu en í þetta sinnið náðu þeir einungis að nýta sér mannamuninn tvisvar. Af brottvikningum SR-manna er það að segja að þær voru fáar og 25 mínútur af heildartíma þeirra komu þegar tvær sekúndur voru eftir af leiknum. SA-menn skoruðu hinsvegar öll sín mörk þegar jafnt var í liðunum og dreifðust mörk og stoðsendingar á marga í liðinu.

Mörk og stoðsendingar SR:
M. Krivanek 2/1
Daniel Kolar 1/1
P. Krivanek 0/1
Brottrekstar/fjöldi SR: 45 mín/7

Mörk og stoðsendingar SA:
Jón Gíslason 2/1
Helgi Gunnlaugsson 2/0
Elvar Jónsteinsson 1/1
Tomas Fiala 1/0
Sigurður Sigurðusson 0/2
Björn M. Jakobsson 0/2
Jón I. Hallgrímsson 0/1
Einar Valentino 0/1
Brottrekstrar/fjöldi SA: 26 mín/13

Seinni leikurinn
Í seinni leiknum, sem fór fram á sunnudeginum, vakti það mesta athygli þegar að í ljós kom að vegna ófærðar að enginn þeirra tékknesku leikmenna er leika með SR höfðu komist til leiks (eru greinilega ekki á Skoda einsog ég). Flestir töldu að þetta myndi veikja SR-liðið það mikið að það ætti enga möguleika í norðanmenn sem hafa verið grimmir upp á síðkastið. Staðan eftir fyrsta þriðjung var 0 -1 (9 - 15) SA í vil en SR-ingum til hróss að þeir voru miklu sprækari en í leiknum frá deginum áður. SR-ingar jöfnuðu í byrjun annars leikhluta en áður en mínúta var liðin höfðu SA-menn náð forystunni aftur. Í þessum leikhluta létu SR-menn skynsemina svolítið lönd og leið og héldu stundum að dómarinn væri þeirra helsti andstæðingur á svellinu. Það er víst marg sannað í íshokkí að það kann ekki góðri lukku að stýra. Leikhlutinn fór 2 - 6 (10 -22) SA-mönnum í vil. Í síðasta leikhlutanum náðu SR-ingar aftur stjórn á leik sínum og misstu ekki mann út af ásamt því að vinna leikhlutann 1 - 0 (11 - 8). Leikurinn endaði því 3 - 7 (30 -45) en það verður að segjast alveg einsog er að seinni leikurinn var töluvert skemmtilegri fyrir áhorfendur, þ.e. þá sem komust vegna þeirra færðar sem var í höfuðstaðnum. Einsog í fyrri leiknum dreifðust mörk og stoðsendinar SA-manna vel.

Mörk og stoðsendingar SR:
Gauti Þormóðsson 2/1
Pétur Maack 1/0
Guðmundur Björgvins 0/1
Todd Simpson 0/1
Þorsteinn Björnsson 0/1
Brottrekstrar/fjöldi SR: 44 mín/14

Mörk og stoðsendingar SA:
Jón Gíslason 2/3
Tomas Fiala 2/0
Birkir Árnason 1/1
Jón I. Hallgrímsson 1/0
Sigurður Árnason 1/0
Björn M. Jakobsson 0/2
Sigurður Sigurðsson 0/1
Brottrekstrar/fjöldi SA: 20 mín/10

Það má segja að eftir þessa leiki hafi íslandsmótið opnast uppá gátt og ekkert nema gott um það að segja.

HH