SR - SA umfjöllun

Skautafélag Reykjavíkur og Skautafélag Akureyrar léku í gær i Laugardalnum og lauk leiknum með sigri SA sem gerði 5 mörk gegn 4 mörkum SR-inga. Liðið skipta þó með sér sitthvoru stiginu þar sem jafnt var eftir venjulegan leiktíma en SA-menn tryggðu sér aukastigið með gullmarki Stefáns Hrafnssonar í framlengingu.

Fyrsta lota var í byrjun í rólegri kantinum en segja má að SA-menn hafi sótt, þá sérstaklega þegar leið á lotuna, en það voru SR-ingar sem skoruðu mörkin. Svavar Rúnarsson skoraði fyrra markið eftir góðan undirbúning Gauta Þormóðssonar en SR-liðið var manni fleiri á ísnum þegar markið kom. Það síðara gerði Þórhallur Viðarsson með góðu skoti og aftur var það Gauti Þormóðsson sem lagði upp markið. Staðan því 2 – 0 heimamönnum í vil eftir fyrstu lotu.

Akureyringar létu hins vegar ekki deigan síga og jöfnuðu leikinn í annarri lotu. Steinar Grettison átti bæði mörkin, það síðara þegar SA-menn voru manni fleiri og var vel að því marki staðið. Staðan því 2 – 2 eftir aðra lotu.

Í þriðju lotu litu 4 mörk dagsins ljós, sem heldur var þó orðið lítið. Þórhallur Viðarsson bætti við sínu öðru marki í leiknum eftir stoðsendingu frá Andra Þór. SA-menn svöruðu hinsvegar með tveimur mörkum. Orri Blöndal átti það fyrra en Sigurður S. Sigurðsson það seinna en á þeim tíma var SA-liðið einum manni færra á ísnum. Gunnlaugur Karlsson, átti líklegast endurkomu leiksins, því í fyrsta leik sínum á tímabilinu jafnaði hann metin fyrir SR-inga. Þar við sat í venjulegum leiktíma þrátt fyrir að bæði lið hefðu möguleika á að stela sigrinum. SR-ingar voru manni fleiri í 5 mínútur en þegar líða fór undir lok lotunnar lentu þeir í miklum refsivandræðum.


Framlengingin stóð hinsvegar ekki lengi yfir. Eftir rúmlega eina mínútu tryggði Stefán Hrafnsson SA-mönum sigurinn einsog áður sagði. Leikurinn var ágæt skemmtun þrátt  fyrir að nokkuð vantaði af mannskap í bæði lið af ýmsum ástæðum. Þeir sem vilja geta næstu tvær vikur horft á mörkin hér.

Mörk/stoðsendingar SR:

Þórhallur Viðarsson 2/1
Svavar Rúnarsson 1/0
Gunnlaugur Karlsson 1/0
Gauti Þormóðsson 0/2
Andri Þór Guðlaugsson 0/2
Sindri Björnsson 0/1

Mörk/stoðsendingar SA:

Steinar Grettisson 2/0
Stefán Hrafnsson 1/1
Orri Blöndal 1/0
Sigurður S. Sigurðsson 1/0
Ingvar Þór Jónsson 0/4
Rúnar F. Rúnarsson 0/1

Myndina tók Sigurgeir Haraldsson

HH