SR - SA umfjöllun

Í gærkvöld fór fram fyrri leikur Skautafélags Reykjavíkur og Skautafélags Akureyrar sem fram fer um þessa helgi. Leiknum lauk með því að SA vann öruggan sigur en þeir skoruðu 7 mörk gegn 2 mörkum SR-inga.
SR-ingar komu mörgum óvart með því að vinna norðanmenn í fyrsta leik sem fram fór fyrir norðan. Sumir vilja reyndar halda því fram að þessi lið vinni frekar hvort annað á útivelli en heimavelli.
Eftir fyrstu lotu leit reyndar út fyrir að leikurinn yrði jafn og spennandi en í henni skoruðu bæði lið tvö mörk. Menn biðu því spenntir eftir annarri lotu en norðanmenn voru yfirburðamenn á svellinu í lotunni og gerðu fjögur mörk án þess að SR-ingar næðu að svara fyrir sig. Staðan var því orðin 2 – 6 SA-mönnum í vil og fjallið sem SR-ingar þurftu að klífa orðið ansi hátt. Síðasta lotan var nokkuð jöfn en SA-menn náðu að bæta við marki um miðja lotuna og þar við sat.
Þegar litið er á skot á mark má sjá að SR-ingar hafa þar vinninginn en þeir áttu 39 skot á mark á móti 34 skotum SA-manna. Á móti kemur að of mörg skot SR-inga voru hættu lítil og því auðveld fyrir Ómar Smára Skúlason markmann SA-manna að verja. Jón B Gíslason fór fyrir liði SA í gærkvöld og greinilega að bæta sig með hverjum leik. 

Seinni leikurinn fer fram í kvöld klukkan 18.30 og vonandi verður hann meira spennandi en leikurinn í gærkvöld.

Mörk/stoðsendingar SR:
 

Hjörtur Hilmarsson 1/0
Svavar Rúnarsson 1/0
Arnþór Bjarnason 0/1
Egill Þormóðsson 0/1  

Brottvísanir: 6 mín.  

Mörk/stoðsendingar SA:

Jón B. Gíslason 3/0

Josh Gribben 1/1
Ingvar Þór Jónsson 1/1
Helgi Gunnlaugsson 1/0
Sigurður S. Sigurðsson 1/0
Stefán Hrafnsson 0/2
Sindri Björnsson 0/1
Sigurður Óli Árnason 0/1  

Brottvísanir: 20 mín.  

Myndina tók Ómar Þór Edvardsson

HH