SR - Björninn umfjöllun

Leikur Skautafélags Reykjavíkur og Bjarnarins bauð upp á allt sem góður hokkíleikur á að hafa. Mörkin voru mörg hver falleg, spilið oft á tíðum gott og spenna fram á síðustu sekúndu.

Leikurinn var í jafnvægi allan tímann en það voru SR-ingar sem gáfu tóninn með marki frá Daniel Kolar rétt fyrir miðja fyrstu lotu. Hjörtur Geir Björnsson svaraði fyrir Bjarnarmenn og Úlfar Jón Andrésson kom þeim yfir áður en fyrstu lotu lauk. Bjarnarmenn voru öllu sókndjarfari í lotunni og forusta þeirra því verðskulduð.

Í annarri lotu mættu SR-ingar hinsvegar grimmir til leiks og uppskáru samkvæmt því. Steinar Páll Veigarsson jafnaði metin fyrir SR strax í byrjun lotunnar en Kópur Guðjónsson kom Bjarnarmönnum strax yfir aftur. Einum manni færri jöfnuðu hinsvegar SR-ingar leikinn aftur og var þar að verki vinnuhesturinn Arnþór Bjarnason. Nýstiginn upp úr svínaflensu kom svo Þórhallur Viðarsson SR-ingum yfir en rétt áður en lotunni lauk skoraði Hjörtur Geir sitt annað mark og staðan því 4 - 4 eftir tvær lotur.

Síðasta lotan var æsispennandi og góð skemmtun fyrir áhorfendur. Þrátt fyrir að Björninn væri það lið sem ætti fleiri skot á mark í lotunni þá voru það SR-ingar sem skoruðu mörkin og þau telja. Gauti Þormóðsson átti fyrra markið og það síðara átti Steinar Páll Veigarsson eftir skot frá Gauta. Bæði lið eiga lof skilið fyrir skemmtilegan leik. Mörkin voru einsog áður sagði mörg falleg og vel að þeim staðið. Ólafur Hrafn Björnsson yljaði áhorfendum með skemmtilegum töktum ásamt Ævari markmanni SR-inga sem sýndi skemmtilega takta.

Mörk/stoðsendingar SR:

Steinar Páll Veigarsson 2/0
Daniel Kolar 1/2
Gauti Þormóðsson 1/2
Anrþór Bjarnason 1/1
Þórhallur Viðarsson 1/0

Refsimínútur SR: 44 mín.

Mörk/stoðsendingar Björninn:

Hjörtur Geir Björnsson 2/0
Kópur Guðjónsson 1/1
Úlfar Jón Andrésson 1/0
Vilhelm Már Bjarnason 0/1
Gunnar Guðmundsson 0/1
Matthías S. Sigurðsson 0/1

Refsimínútur Björninn: 15 mín.

Myndina tók Ómar Þór Edvardsson.

HH