SR - Björninn umfjöllun

Í gærkvöld léku lið Skautafélags Reykjavíkur og Bjarnarins í Skautahöllinni í Laugardal. Eitthvað var um að flensan léki liðin grátt og þá sérstaklega lið Bjarnarins. Leikurinn hófst með miklum látum og ekki voru liðnar nema tæpar fjörutíu sekúndur af leiknum þegar Björninn skoraði fyrsta mark leiksins og var þar á ferðinni Kolbeinn Sveinbjarnarson . Kolbeinn var aftur á ferðinni 7 mínútum seinna og kom Birninum í 2 – 0 en markið skoraði hann eftir stoðsendingu frá Sergei Zak. SR-ingar þyngdu í sókninn hjá sér og elleftu mínútu minnkaði Daníel Kolar muninn og um hálfri mínútu síðar jafnaði  Gauti Þormóðsson svo metin fyrir Skautafélagið með góðu marki.
Eftir það greip algjör markaþurrð bæði lið og í  í annarri lotu var ekkert skorað. Í þriðju ,og síðustu lotu, skiptust liðin á að sækja en það var ekki fyrr en tæpar þrjár mínútur lifðu leiks sem SR-ingar náðu að komast yfir. Þar var á ferðinni hinn ungi Björn Róbert Sigurðarson eftir stoðsendingu frá Agli Þormóðssyni. En  Bjarnarmenn gáfust ekki upp og fjörutíu sekúndum fyrir leikslok náðu þeir að jafna metin með enn einu markinu frá Kolbeini.
Ekki komu fleiri mörk í hefðbundnum leiktíma og því framlengt um tíu mínútur, eða allt þar til gullmark kemur. Það var Gauti Þormóðsson sem sá um að tryggja SR-ingum aukastigið sem var í boði með marki eftir tæpar þrjár mínútur. Leikurinn var ágætlega leikinn af beggja hálfu og lokamínútur hans fín skemmtun fyrir áhorfendur.


Lotur 2- 2, 0 – 0, 1 – 1 og 1 -0

Mörk/stoðsendingar SR

Gauti Þormóðsson 2/0
Daniel Kolar 1/1
Björn Róbert Sigurðarson 1/0
Egill Þormóðsson 0/2
Óskar Grönhólm 0/1

Brottvikningar SR: 22 mín.

Mörk/stoðsendingar Björninn:

Kolbeinn Sveinbjarnarson 3/0
Sergei Zak 0/2
Gunnar Guðmundsson 0/1

Brottvikningar Björninn 6 mín.

Dómari var Snorri Gunnar Sigurðsson.

Myndina tók Ómar Þór Edvardsson

HH

HH