SR - Björninn umfjöllun

Skautafélag Reykjavíkur og Björninn áttust við í Skautahöllinni í Laugardal í gærkvöld. Í síðasta leik liðanna vann Björninn öruggan sigur og ljóst var strax í byrjun að SR-ingar ætluðu ekki að láta það endurtaka sig. Þegar innan við þrjár mínútur voru liðnar að leiknum skoraði Björn Róbert Sigurðusson mark fyrir SR-inga eftir stoðsendingu frá Kristjáni Gunnlaugssyni. Þess má geta að þetta er fyrsta mark Björns Róberts í meistaraflokki karla. Þetta var jafnframt eina mark þriðjungsins.
Á sjöundu mínútu annarrar lotu bættu SR-ingar við öðru marki og var þar að verki Guðmundur Björgvinsson með góðu skoti utan af velli. Bjarnarmenn komu sér inn í leikinn með marki frá Ólafi Hrafni Björnssyni en SR-ingar svöruðu fljótt fyrir sig en þar var að verki Kristján Gunnlaugsson nýkominn af refsibekknum.  Staðan því orðin 3 -1 og þannig var hún þegar flautað var til loka annarrar lotu.
Bjarnarmenn komu ákveðnir til leiks í þriðju lotu og á mínútu kafla í byrjun leikhlutans náðu þeir að jafna með mörkum frá Birgi Hansen og Brynjari Þórðarsyni og leikurinn í járnum. SR-ingar gáfust ekki upp og Steinar Páll Veigarsson kom þeim fljótlega yfir aftur þegar u.þ.b. 15 mínútur voru eftir að leiknum. En það voru Bjarnarmenn sem áttu lokaorðið því þegar um þrjár mínútur voru eftir náðu þeir að gera tvö mörk á  25 sekúndna kafla. Mörkin skoruðu Trausti Bergmann og Brynjar Þórðarson en Sergei Zak átti stoðsendinguna i bæði skiptin. Leikurinn var spennandi allt fram á síðustu mínútu og sigurinn hefði getað fallið báðum liðum í skaut.
Þetta var síðasti leikur í meistaraflokki karla fram að áramótum en um næstu helgi eiga konurnar sviðið.

Mörkin í leiknum má sjá hér næstu tvær vikurnar

HH