SR - Björninn umfjöllun

Þrátt fyrir að tímabilið sé rétt að hefjast hjá okkur hokkímönnum má segja að þeir sem lögðu leið sína í Laugardalinn hafi notið góðrar skemmtunar. Leikmenn og lið eiga að sjálfsögðu eftir að slípast í leik sínum en engu að síður brá fyrir skemmtilegum köflum hjá báðum liðum. Leiknum lauk með sigri SR sem gerði 7 mörk gegn 3 mörkum gestanna úr Birninum. (Lotur 3 - 0, 0 - 1, 4 - 2)
SR-ingar voru þó öllu tilbúnari þegar flautað var til leiks og í fyrstu lotu settu þeir þrjú mörk á Bjarnarmenn án þess að þeir næðu að svara fyrir sig. Síðasta markið í þriðjungnum gerðu SR-ingar einum leikmanni færri (short handed) mínútu áður en flautað var til hlés. (SKot á mark 22 -15)
Strax í byrjun annarrar lotu náði Birgir Hansen að koma Bjarnarmönnum á blað og inn í leikinn. Þetta var jafnframt eina markið sem skorað var í þriðjungnum og í honum áttu gestirnir í fullu tré við gestgjafana og áhorfendur sáu fram á spennndi þriðja leikhluta. (Skot á mark 11 - 14)
SR-ingar komu hinsvega bráðhressir til leiks í þriðja hluta og með tveimur mörkum á tæpum þremur mínútum gerðu þeir út um leikinn. Lotan endaði 4 - 2 fyrir heimaliðið og voru öll mörkin skoruð þegar SR-ingar voru manni fleiri en á fyrstu fimm mínútum lotunnar náðu Bjarnarmenn sér í fjórar brottvísanir. Rétt einsog í fyrsta leikhluta náði annað liðið að skora á hitt manni færri og í það skiptið var þar á ferðinni Birgir Hansen fyrir Björninn. (Skot á mark 21 - 14).

Þrátt fyrir að hafa misst eitthvað af mannskap síðan í fyrra náðu SR-ingar að spila ágætis leik og þá sérstaklega í fyrstu og þriðju lotu. Bjarnarmenn áttu hinsvegar ágæta aðra lotu og hefðu getað komið sér inn í leikinn en sú von fór strax í byrjun þeirrar þriðju eins og áður sagði.

Daniel Kolar 2/3
Egill Þormóðsson 2/2
Steinar Páll Veigarsson 2/0
Guðmundur Björgvinsson 1/0
Tómas Tjörvi Ómarsson 0/1
Arnþór Bjarnason 0/1

Brottvísanir SR: 14 mín
 
Mörk/stoðsendingar Björninn:
 
Birgir Hansen 3/0
Daði Heimisson 0/1
Einar Sveinn Guðnason 0/1
Niklas Aalto-Setala 0/1.

Brottvísanir Björninn: 16 mín

Myndina tók Jakob Fannar Sigurðsson

HH