Slóvenía - Ísland

Fyrr mark íslenska liðsins í uppsiglingu
Fyrr mark íslenska liðsins í uppsiglingu

Annar leikur íslenska liðsins á HM fór fram í gærkvöld þegar liðið mætti Slóvenum. Leiknum lauk með sigri Slóvena sem gerðu fimm mörk gegn tveimur mörkum íslenska liðsins. Slóvenska liðið sem kom niður úr a-hópnum á síðasta tímabili var eðli málsins samkvæmt efst í styrkleikaröðun mótsins og því vitað að leikurinn yrði íslenska liðinu erfiður.

Það var samt íslenska liðið sem komst yfir á þriðju mínútu leiksins þegar Linda Brá Sveinsdóttir skoraði mark eftir vel uppfærða sókn liðsins. Skömmu síðar missti íslenska liðið hinsvegar mann af velli og það voru Slóvenarnir fljótir að nýta sér og jöfnuðu metin og þannig var staðan í lotulok. Í annarri lotunni bættu Slóvenar svo við sínu öðru marki og staðan 2 - 1 í lotulok og enn gat allt gerst.
Pria Pen kom Slóvenum síðan í 3 - 1 strax í byrjun þriðju lotu og því orðið á brattann að sækja fyrir íslenska liðið. Slóvenar bættu síðan við tveimur mörkum áður en Hrund Einarsdóttir Thorlacius lagaði okkar hlut þegar átta sekúndur lifðu leiks.

Þrátt fyrir tapið voru ljósir punktar í leik okkar liðs. Liðið skoraði gott mark í byrjn, barðist fram á síðustu stundu og uppskar annað mark. Einnig fækkaði refsimínútum um helming frá því í leiknum á undan en slóvenska liðið náði þó að nýta sér í tvígang þegar við höfðum undirtölu á ísnum. Næsti leikur er á morgun, fimmtudag en þá verður leikið gegn Króatíu en þær eru sem stendur efstar á mótinu. Leikurinn hefst klukkan 20.00

Mörk/stoðsendingar Íslands:

Linda Brá Sveinsdóttir 1/0 
Hrund Einarsdóttir Thorlacius 1/0
Sarah Smiley 0/1

Refsingar Íslands: 8 mínútur.

Mynd: Elvar Pálsson

HH