Skautasvell dúkka upp víða

Skautaunnendur á Dalvík síðasta vetur - Mynd fengin af Facebook-síðu skautasvellsins á Dalvík, https…
Skautaunnendur á Dalvík síðasta vetur - Mynd fengin af Facebook-síðu skautasvellsins á Dalvík, https://www.facebook.com/skautasvellid/

Núna í aðdraganda jóla hafa dúkkað upp skautasvell víða á landinu.  Flestir þekkja núorðið Nova-svellið sem er staðsett á Ingólfstogi í Reykjavík sem hefur verið sett upp í nóvembermánuði síðustu ár.  En skautasvell, bæði náttúrulegur ís og gervi, hafa verði að skjóta upp kollinum víðsvegar á landinu.  Nýjustu fréttir herma að Reykjanesbær hafi fest kaup á gervi-ís sem verður settur upp núna á næstu dögum þar sem skautaunnendur geta rennt sér á í desember og fram inn á næsta ár.  Einnig hefur landsliðsmaðurinn og ferðaþjónustufrumkvöðullinn Úlfar Jón Andrésson komið sér upp gervi-ís í Hveragerði þar sem hann stundar æfingar af kappi.  Á síðasta ári varð til skautasvell neðan við Íþróttamiðstöðina á Dalvík þar sem nemendur Dalvíkurskóla fengust varla til að stoppa.  Nú hafa Flateyringar bæst í hópinn þar sem þeir hafa steypt plötu til að geta búið til skautasvell sem fryst er af náttúrunnar hendi og hefur verið vinnsælt hjá bæjarbúum.   Hafnfirðingar láta ekki sitt eftir liggja í þessum málum heldur og sett hafa upp 200m2 svell við Bæjarbíó og hefur það fengið nafnið Hjartasvellið.

Aðalforsenda þess að íþróttin okkar stækki á Íslandi er að það komi skautasvell svo að hægt sé að stunda íshokkí hvort sem um ræðir gervi-ís, náttúrulegan ís eða vélfryst skautasvell þannig að þetta er afar jákvæð þróun í rétt átt en við þurfum að sameinast í að hvetja sveitarfélögin á landinu til að koma upp varanlegri skautaaðstöðu svo að hægt sér að hefja æfingar í íshokkí  og veita almenningi aðgang að.