Skautafélag Akureyrar Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna

Í gær var á dagskrá síðasti leikur vetrarins í meistaraflokki kvenna, hann var leikinn í Egilshöll og þar tók Björninn á móti SA.  SA hefur haft nokkra yfirburði í kvenna hokkí í vetur og fyrir þennan leik höfðu þær sigrað alla leiki sína í vetur.  Bjarnarliðið mætti í þennan leik gríðarlega einbeitt og ákveðið og án nokkurs vafa voru þær að spila sinn besta leik í vetur. SA náði foristu á 14 mínútu með marki Steinunnar Sigurgeirsdóttur eftir stoðsendingu frá Kolbrúnu Sigurlásdóttur. Þannig stóðu leikar eftir fyrsta leikhluta Björninn 0 - SA 1.

Björninn mætti í annan leikhluta mjög ákveðinn og á 25 mínútu og aftur á 27 mínútu skoraði Hrafnhildur Ýr Ólafsdóttir eftir stoðsendingu frá Hönnu Heimisdóttur í bæði skiptinn og Björninn var komin yfir.  Norðan stúlkur neituðu að gefast upp og voru ekki á þeim buxunum að tapa sínum fyrsta leik í vetur.  Birna Baldursdóttir fyrirliði SA jafnaði leikinn á 34 mínútu, Sigrún Agatha Árnadóttir (Agga) kom Bjarnarliðinu aftur yfir á 38 mínútu og Jóhanna Ólafsdóttir jafnaði enn á ný fyrir SA á 39 mínútu.  Opin fjörugur og stórskemmtilegur leikur og staðan eftir annan leikhluta var Björninn 3 - SA 3 og leikurinn gat fallið í báðar áttir.

SA stúlkur mættu ákveðnari til þriðja leikhluta og einungis voru liðnar af honum 22 sekúndur þegar stórskemmtilegt samspil Steinunnar Sigurgeirsdóttur og Jóhönnu Ólafsdóttir færði SA mark, Jóhanna skoraði og Steinunn átti stoðsendinguna. 6 mínútum síðar bætti Birna Baldursdóttir við marki fyrir SA eftir stoðsendingu frá Sólveigu Smáradóttur. Það var síðan Jónína Guðbjartsdóttir sem að innsiglaði sigur SA með því að skora glæsilegt mark á 54 mínútu.  Bjarnarliðið var hikandi framan af þriðja hluta og SA gékk á lagið Sigrún Agatha Árnadóttir (Agga) neitaði að gefast upp og bætti við marki þegar að tæpar tvær mínútur voru til leiksloka. Endanleg úrslit leiksins....

Björninn 4 - SA 6 (0-1)(3-2)(1-3)

Mörk og stoðsendingar:

Björninn: Hrafnhildur Ýr Ólafdóttir 2/0, Sigrún Agatha Árnadóttir 2/0, Hanna Rut Heimisdóttir 0/2

SA: Birna Baldursdóttir 2/0, Jóhanna Ólafsdóttir 2/0, Steinunn Sigurgeirsdóttir 1/1, Jónína Guðbjartsdóttir 1/0, Sólveig Smáradóttir 0/1, Kolbrún Sigurlásdóttir 0/1

Refsingar:

Björninn: Kristín Sunna Sigurðardóttir 2 mínútur fyrir grófan leik (roughing), Flosrún Vaka Jóhannesdóttir 2 mínútur fyrir grófan leik (roughing), Sigrún Agatha Árnadóttir 2 mínútur fyrir grófan leik (roughing).  Samtals refsingar Bjarnarins 6 mínútur

SA: Hildur Axelsdóttir 2x2 mínútur fyrir grófan leik (roughing), Birna Baldursdóttir 2 mínútur fyrir krækju (hooking) og 2 mínútur fyrir óíþróttamannslega hegðun (unsportmanslike conduct), Sólveig Valgeirsdóttir 2 mínútur fyrir halda kylfu mótherja (holding the stick), Jónína Guðbjartsdóttir 2 mínútur fyrir grófan leik (roughing), Patricia Huld Ryan 2 mínútur fyrir grófan leik (roughing). Samtals refsingar SA 14 mínútur.

Aðaldómari leiksins var Berglind Ólafsdóttir

Í lok leiksins var kvennaliði Skautafélags Akureyrar afhentur íslandsbikar kvenna sem er farandgripur auk þess sem að félagið fékk einnig bikar til eignar. Fyrir liði SA Birna Baldursdóttir tók við bikurunum eftir frábært tímabil þar sem að liðið kláraði mótið með fullt hús stiga. Leikmenn SA fengu síðan gullmedalíur og leikmenn Bjarnarins silfurmedalíur.