Sigur í fyrsta leik á HM U20 í Laugadalnum

Strákarnir fagna marki.  Myndina tók Gunnar Jónatansson
Strákarnir fagna marki. Myndina tók Gunnar Jónatansson

Rétt í þessu var að ljúka fyrsta leik íslenska U20 ára landsliðs Íslands í karlaflokki á heimsmeistaramótinu sem hófst í Laugardalnum í dag.  Íslenska liðið bar þar sigurorð af Áströlum eftir gríðarlega jafnan leik og hvar úrslit réðust ekki fyrr enn í bráðabana.

 

Fyrsta mark Íslands kom á 11. mínútu þegar Styrmir Maack nýtti sér liðsmuninn eftir að einum Ástralanum hafði verið vikið af leikvelli.  Stoðsendingarnar áttu þeir Kristján Árnason og Gunnar Arason.

Skömmu síðar brutu gestirnir aftur af sér en tókst engu að síður að jafna leikinn þrátt fyrir að vera einum leikmanni færri.  Ástralir héldu hins vegar áfram að vera heldur harðhentir og hlutu annan 2ja mínútna dóm á 15. mínútu og þá gengur okkar menn á lagið og Bjartur Gunnarsson náði forystunni að nýju fyrir Ísland með aðstoð frá Styrmi Maack.

Fleiri urðu mörkin ekki í lotunni og staðan því 2 – 1.  Fljótlega í byrjun 2. lotu voru gestirnir enn við sama heygarðshornið, brutu af sér og í þetta skiptið var það Kristján Grant sem nýtti sér liðsmunin og jók forystuna í 3 – 1 eftir sendingar frá Axel Orongan og Gunnari Arasyni.

Ástralir minnkuð muninn fyrir lok lotunnar og enn einu sinni var skorað í „power play“, þ.e.a.s. liðið nýtti sér það að íslenska liðið var einum leikmanni færra eftir að Sölva Atlasyni var vikið af velli á 14. mínútu lotunnar.

Spennan var því í hámarki þegar 3ja lota hófst, 3 – 2 fyrir okkur og öll mörkin 5 skoruð í kjölfar brottrekstra. 

Íslenska liðið byrjaði 3. lotuna einum leikmanni færri eftir að Axel Orongan fékk brottvísun skömmu fyrir lok 2. lotu.  Samkvæmt uppskriftinni skoruðu Ástralir strax eftir 30 sek og jöfnuðu þar með leikinn.

Um miðbik lotunnar náðu svo Ástrálir forystunni og að þessu sinni þegar jafnmargir leikmönnum voru inná hjá báðum liðum, en þó aðeins 3 sek eftir að Einar Grant lauk afplánun og okkar menn ekki búnir að stilla almennilega upp í 5 á 5. 

Okkar menn voru hins vegar ekki af baki dottnir og voru fljótir að svara fyrir sig Heiðar Kristveigarson jafnaði leikinn aðeins einni mínútu síðar eftir sendingar frá Axel og Sölva og reyndist þetta síðasta markið í venjulegum leiktíma.

Þá þurfti að grípa til framlengingar, 5 mínútna bráðabana þar sem hvort lið spilar aðeins með 3 menn inná í einu.    Það tók ekki langan tíma að klára málið í framlengingunni eða aðeins 36 sekúndur en þá voru inná ísnum Heiðar Kristveigarson, Sigurður Þorteinsson og Axel Orongan en það var einmitt sá síðastnefndi sem gerði út um leikinn eftir góðan undirbúning hinna.

Góður sigur en þó ekki full hús stiga þar sem sigur í framlengingu gefur 2 stig og tapliðið fær 1 stig fyrir jafntefli í venjulegum leiktíma.  Engu að síður góð byrjun á mótinu en næsti leikur er strax á morgun og þá eru mótherjarnir Tapei.