Sigur gegn Bulgariu

Í gær mættust Ísland og Búlgaría í 3. leik okkar hér á Heimsmeistaramótinu í Kaunas í Litháen.  Markmiðið var að ná 11 mörkum en fyrir leikinn var Litháen með 76 mörk skoruð en Ísland 66 og bæði lið höfðu fengið eitt mark á sig.  Ísland þurfti því 11 mörk til að ná hagstæðara markahlutfalli sem myndi gera það verkum að jafntefli dygði gegn Litháen í síðasta leik, sem fram fer seinna í dag.
 
Liðið fór mjög vel af stað og Emil Alengard skoraði fyrsta markið strax á fyrstu mínútu leiksins eftir sendingu frá Birki Árnasyni.  Emil bætti við öðru marki skömmu síðar óstuddur og Jón Ingi skoraði þriðja og síðasta mark lotunnar á 8. mínútu eftir sendingar frá Gauta Þormóðssyni og Þórhalli Viðarssyni.  Á þessum tímapunkti kom slæmur kafli hjá íslenska liðinu sem reyndar lá í sókn það sem eftir var lotunnar og spilaði meira eða minna einum eða tveimur leikmönnum fleira en án þess að skora mark.
 
Ed Maggiacomo las hressilega yfir hausamótunum á þeim í leikhléi sem skilaði 6 mörkum í 2. lotu og því var staðan komin í 9 – 0 þegar 3. lota hófst og allt leit út fyrir að auðvelt yrði að ná markmiðinu um 11 mörk.
 
Emil skoraði á 4. mínútu lotunnar en þá var eins og allt væri stopp hjá okkar mönnum.  Það gekk hvorki né rak í sókninni og búlgarski markmaðurinn varði eins og berserkur.  Þegar um 4 mínútur voru eftir af leiknum tók Ed leikhlé og skerpti á mönnum fyrir síðustu mínúturnar.  Skömmu síðari eða þegar um 3 mínútur voru eftir af leiknum skoraði Emil hið langþráða 11. mark og sitt 5. mark í leiknum og tryggði okkur loksins rétt markahlutfall.
 
Búlgararnir hresstust eitthvað á síðustu mínútunum og komust m.a. í “break away” þegar um 10 sekúndur voru eftir af leiknum en þó kaldur væri tókst Aroni Stefánssyni að koma í veg fyrir mark með góðri vörslu.  Lokastaðan varð 11 – 0 og þessu markmiði náð.  Með þessum sigri tryggði liðið sér jafnframt farmiða uppúr riðlinum því efstu tvö liðin fara upp.  Það breytir þó ekki því að mikil spenna ríkir fyrir leik kvöldsins þegar við mætum gestgjöfunum um gullið.
 
Mörk / stoðsendingar
Emil Alengard 5/1, Þórhallur Viðarsson 1/3, Arnþór Bjarnason 1/3, Birkir Árnason 0/4, Gauti Þormóðsson 1/1, Jón Ingi Hallgrímsson 1/1, Daniel Eriksson 1/0, Úlfar Andrésson 1/0, Kári Valsson 0/1, Elmar Magnússon 0/1.
 
Ísland tók 45 skot á markið en Búlgaría 6.  Aron Leví Stefánsson stóð í markinu allan tímann.