Samkomulag við Dani

Danska íshokkísambandið með Kim Pedersen og forritarann Claus Fonnesbech Christensen í broddi fylkingar, hafa samþykkt að lána ÍHÍ internet upplýsingakerfi sitt til notkunar hér á Íslandi næsta tímabil. Með þessu verður gjörbylting á öllu utanumhaldi á tölulegum upplýsingum auk þess sem mun auðveldara verður að senda fjölmiðlum upplýsingar um leiki og frammistöðu einstakra leikamanna.

Von er á þeim félögum í heimsókn hingað í lok september til þess að setja upp kerfið. Þeir félagar sjá um alla þjálfun á dómurum Danska sambandsins og verður haldið framhaldsnámskeið fyrir dómara á sama tíma og þeir koma til landsins.

Við það að þetta kerfi er tekið upp, verður sú nýbreytni að ritarar í leikjum skrá inn á leikskýrslur beint í tölvur og aðeins 10 sekúndum síðar eru upplýsingarnar komnar á internetið, þannig geta allir áhugamenn fylgst með leikjum í beinni útsendingu á Internetinu. Þessi breyting kallar á að félögin þurfa að koma upp tölvu sítengingu í ritaraboxum sínum. Mjög umfangsmikil skráning á tölulegum staðreyndum eru skráðar jafn óðum inn í kerfið s.s. skot á mark, varin skot, +/- upplýsingar, hvaðan skotið var, ásamt ýmsu fleiru.

Við hjá stjórn ÍHÍ erum vinum okkar í danska sambandinu sérlega þakklátir fyrir hjálpina. Hér á vefnum eru sýnishorn af því hvenig hinar tölulegu upplýsingar eru settar fram. (sjá tölulegar upplýsingar)