SA Víkingar - SR 5. leikur í úrslitum

Í gærkvöld léku SA Víkingar og Skautafélag Reykjavíkur fimmta og síðasta leik í úrslitum íslandsmótsins í íshokkí karla. Leiknum lauk með sigri SA Víkinga sem gerðu sex mörk gegn tveimur mörkum SR-inga. SA Víkingar eru því íslandsmeistarar keppnistímabilið 2010-11

Víkingar hófu leikinn með miklum látum og þegar rétt rúmlega átta mínútur voru liðnar af leiknum var staðan orðin 3 – 0 þeim í vil. Jón Benedikt Gíslason opnaði fyrir þá markareikninginn á strax á þriðju mínútu leiksins. Innan við tveimur mínútum síðar hafði Jóhann Már Leifsson bætt öðru marki við og að þessu sinni átti Jón Benedikt stoðsendinguna í markinu. Víkingar nýttur sér síðan liðsmun þegar Rúnar Freyr Rúnarsson skoraði fyrir þá. Svavar Steinssen náði hinsvegar að minna muninn fyrir SR-inga og staðan 3 – 1 eftir fyrstu lotu.
Í annarri lotu komu gestirnir úr SR sér meira inn í leikinn og þeir áttu jafnframt eina mark lotunnar. Markið gerði Egill Þormóðsson úr víti en vítið fiskaði hann sjálfur eftir að hafa komist einn innfyrir vörn Víkinga. Staðan því 3 – 2 heimamönnum í vil.

Fljótlega í þriðju lotunni bættu Víkingar í forskotið manni fleiri á ísnum.  Markið gerði Stefán Hrafnsson  en stoðsendingar áttu Jón B. Gíslason og Jóhann Már Leifsson. U.þ.b. þegar lotan var hálfnuð höfðu Víkingar bætt við tveimur mörkum í viðbót og staða þeirra orðin æði vænleg. Jón Benedikt átti fyrra markið og Stefán Hrafnsson það síðara.

Mörk/stoðsendingar SA Víkingar:

Jón Benedikt Gíslason 2/2
Stefán Hrafnsson 2/1
Jóhann Már Leifsson 1/1
Rúnar Freyr Rúnarsson 1/0
Ingvar Þór Jónsson 0/1

Refsingar SA: 14 mínútur

Mörk/stoðsendingar SR:

Svavar Steinssen 1/0
Egill Þormóðsson 1/0

Refsingar SR: 69 mínútur.


Við óskum SA Víkingum til hamingju með titilinn.

Mynd Sigurgeir Haraldsson

HH