SA Víkingar - SR 3. leikur í úrslitum

Lið SA Víkinga og SR léku fjórða leik sinn í úrslitakeppninni um íslandsmeistarartitilinn á Akureyri í gærkvöld. Leiknum lauk með sigri norðanmanna í Víkingum sem gerðu þrjú mörk gegn tveimur mörkum SR-manna. Bæði lið mættu vel mönnuð til leiks þó eitthvað vantaði uppá. Jón B. Gíslason og Ingólfur T. Elíasson voru komnir inn í lið Víkinga að nýju eftir meiðsli og veikindi en þess í stað voru Andri Már Mikalesson og Andri Freyr Sverrisson komnir á veikinda og meiðslalistann.
Leikurinn var fjörugur frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu en það var Björn Róbert Sigurðarson sem kom SR-ingum yfir með marki þegar rétt rúmar sjö mínútur voru liðnar af lotunni. Stoðsendingu átti Kristján Gunnlaugsson. U.þ.b. þremur mínútum seinna hafði Jóhann Már Leifsson jafnað metin fyrir norðanmenn eftir stoðsendingu frá Jóni B. Gíslasyni. Mínútu síðar voru Víkingar síðan komnir yfir með marki frá Gunnari Darra Sigurðssyni og staðan því 2 – 1 og þannig var hún til lotuloka.
Í annarri lotu juku Víkingar forskot sitt í 3 – 1 með eftir góðan sprett hjá varnarmanninum Orra Blöndal. SR-ingar svöruðu hinsvegar fyrir sig um miðja lotu þegar þeir nýttu sér að vera einum fleiri. Gauti Þormóðsson átti skot á mark sem breytti um stefnu eftir snertingu frá liðsfélaga hans Þórhalli Viðarssyni.
Staðan því 3 -2 og leikurinn hálfnaður.
Ekki litu fleiri mörk dagsins ljós það sem eftir lifði lotunnar og reyndar ekki það sem eftir lifði leiks. Ekki vantaði þó fjörið í leikinn og lokamínúturnar voru æsispennandi svo ekki sé meira sagt. Bæði lið áttu þar tækifæri til að skora en inn vildi pökkurinn ekki.

Staðan í einvíginu er nú 2 – 1 SR-ingum í vil og næsti leikur verður leikinn nk. sunnudag í Laugardalnum og hefst klukkan 13.15

Mörk/stoðsendingar SA Víkingar:

Jóhann Már Leifsson 1/0
Gunnar Darri Sigurðsson 1/0
Orri Blöndal 1/0
Jón Benedikt Gíslason 0/1
Steinar Grettisson 0/1

Refsingar SA Víkingar: 28 mínútur

Mörk/stoðsendingar SR:

Björn Róbert Sigurðarson 1/0
Þórhallur Viðarsson 1/0
Kristján Gunnlaugsson 0/1
Gauti Þormóðsson 0/1

Refsingar SR: 8 mínútur

Mynd: Sigurgeir Haraldsson

HH