SA Víkingar - SR 1. leikur í úrslitum

SA Víkingar og Skautafélag Reykjavíkur léku fyrsta leik í úrslitum í gærdag og fór leikurinn fram á Akureyri. Leiknum lauk með sigri SR-inga sem gerðu 6 mörk gegn 4 mörkum norðanmanna í SA-Víkingum.
Lið SR-inga var fullmannað en á tímabili leit út fyrir að Steinar Páll Veigarsson fyrirliði þeirra yrði ekki með en hann hafði tvisvar orðið fyrir óhappi á stuttum tíma. SA Víkingar söknuðu hinsvegar Ingólfs Elíassonar, úr vörninni hjá sér, en hann meiddist á æfingu í síðustu viku.
SR-ingar voru sókndjarfari í fyrstu lotunni og Svavar Steinsen kom þeim yfir þegar rétt sjö mínútur voru liðnar af fyrstu lotu en stoðsendinguna átti Tómas Tjörvi Ómarsson. Tuttugu og sex sekúndum seinna var Jón Benedikt Gíslason búinn að jafna leikinn eftir sendingu frá Jóhanni Leifssyni. SR-ingar áttu hinsvegar síðasta orðið í lotunni, hvað markaskorun áhrærði, því um miðja lotu kom Pétur Maack þeim yfir. Staðan því 1 – 2 gestunum í vil eftir fyrstu lotu.
Önnur lotan var eign SR-inga hvað markaskorun varðaði  og að henni lokinni var staðan orðin 1 – 5 þeim í vil. Mörkin gerður Þórhallur Viðarsson, Egill Þormóðsson og Arnþór Bjarnason.
SA Víkingar hrukku hinsvegar í gang í síðustu lotunni og náðu að saxa á forskotið hjá SR-ingum. Sigmundur Sveinsson minnkaði fyrir þá muninn í 2 – 5 en Egill Þormóðsson jók muninn aftur í fjögur mörk örfáum sekúndum seinna. Jón Benedikt Gísla son átti síðan tvö síðustu mörk leiksins og lokatölur því 4 – 6 einsog áður sagði.
Bæði lið náðu að nýta sér liðsmun nokkuð vel, en helmingur marka leiksins kom þegar andstæðingar voru með leikmann í refsiboxinu.

Mörk/stoðsendingar SA Víkingar:

Jón Benedikt Gíslason 3/0
Sigmundur Sveinsson 1/0
Jóhann Már Leifsson 0/2
Orri Blöndal 0/1

Refsingar SA Víkingar: 34 mínútur

Mörk/stoðsendingar SR:

Egill Þormóðsson 2/0
Svavar Steinsen 1/1
Arnþór Bjarnason 1/1
Pétur Maack 1/0
Þórhallur Viðarsson 1/0
Gauti Þormóðsson 0/2
Andri Þór Guðlaugsson 0/1
Timo Kolvumaki 0/1
Tómas Tjörvi Ómarsson 0/1

Refsingar SR: 14 mínútur.

Næsti leikur liðanna er á morgun, þriðjudag, en þá mætast liðin í Skautahöllinni í Laugardal og hefst leikurinn klukkan 20.15

Mynd: Sigurgeir Haraldsson

HH