SA Víkingar - Björninn umfjöllun

Frá leiknum í gærkvöld
Frá leiknum í gærkvöld

SA Víkingar og Björninn áttust við í gærkvöld og lauk leiknum með sigri SA Víkinga sem gerðu átta mörk gegn einu marki gestanna úr Birninum. Með sigrinum náðu Víkingar þriggja stiga forskoti á Bjarnarmenn í toppsæti deildarinnar en þeir eiga jafnframt leik til góða á móti SR-ingum sem fram fer á morgun á Akureyri.    
Rétt einsog í síðasta leik liðanna, sem endaði með 5 – 0 sigri Bjarnarins, voru Víkingar sókndjarfari alveg frá byrjun leiks. Það dugði þó ekki til að byrja með því þegar langt var liðið á lotuna kom Trausti Bergmann Birninum yfir með marki af stuttu færi.
Víkingar hresstust hinsvegar hvað markaskorun varðaði í annarri lotu og Andri Freyr Sverrisson jafnaði metin með marki af stuttu færi fljótlega í byrjun lotunnar. Ben Di Marco kom Víkingum síðan yfir skömmu síðar með góðu skoti. Tvö mörk bættust síðan við áður en lotan var úti og þar voru fyrrnefndir Andri og Ben einnig á ferðinni.
Þriðja lotan var á svipaðan veg og önnur lotan. Ingþór Árnason kom heimamönnum í 5  - 1 eftir að hafa komist inn í sending Bjarnarmanna. Þrjú mörk bættust við áður en leikurinn var úti og í þeim fullkomnuðu Andri Freyr og Ben DiMarco þrennur sínar en Andri Már Mikaelsson átti þriðja markið.

Mörk/stoðsendingar SA Víkinga:
Ben DiMarco 3/2
Andri Freyr Sverrsson 3/0
Andri Már Mikaelsson 1/0
Ingþór Árnason 1/0
Jón B. Gíslason 0/5
Ingvar Þór Jónsson 0/3
Jóhann Már Leifsson 0/1
Björn Már Jakobsson 0/1

Refsingar SA Víkinga: 45 mínútur.

Mörk/stoðsendingar Björninn:
Trausti Bergmann 1/0
Lars Foder 0/1

Refsingar Björninn: 72 mínútur.

Mynd: Elvar Freyr Pálsson

HH