SA vann Björninn 12 - 5

Í gærkvöldi fór fram einn leikur í Íslandsmótinu í íshokkí þegar SA tók á móti Birninum á Akureyri.  Heimamenn voru sterkari aðilinn í leiknum og unnu frekar öruggan 12 - 5 sigur.  Bjarnarmenn lentu í töluverðum brottrekstarvandræðum og SA nýtti power play-in vel og skoruðu alls 7 mörk undir þeim kringumstæðum.  Bjarnarmenn bitu hins vegar vel frá sér og skoruðu t.d. tvö power play mörk og í öðru þeirra voru þeir m.a.s. tveimur leikmönnum færri.
 
Athygli vakti Hrólfur Gíslason sem skoraði fyrstu þrjú mörk Bjarnarins en hann hefur nú spilað þrjá leiki í vetur og er nú þegar orðinn með markahæstu mönnum í deildinni og hefur m.a. landað tveimur hatta-brellum.  Það sem gerir árangur Hrólfs enn eftirtektarverðari er að hann æfir víst eitthvað mjög lítið, eða jafnvel ekki neitt heldur spilar aðeins leikina.
 
Hjá SA bar mest á 1. framlínu þeirra en hana skipa Tékkarnir Fiala og Koci ásamt Jóni Gísla en jafnframt átti Björn Jakobsson góða spretti og skoraði 3 mörk.
 
Töluverður hiti var í mönnum og oft var refsibekkurinn þétt setinn sem síðan gerði það að verkum að leikurinn tók helst til langan tíma. Engu að síður sáust mörg falleg tilþrif hjá báðum liðum sem glöddu augað en leikurinn var bæði hraður og harður.
 
Mörk og stoðsendingar
 
SA: Jakob Koci 2/6, Jón Gíslason 2/4, Björn Már Jakobsson 3/0, Thomas Fiala 2/1, Sindri Björnsson 1/1, Birkir Árnason 1/1, Steinar Grettisson 1/0
 
Björninn:  Hrólfur Gíslason 3/0, Trausti Bergmann 1/0, Úlfar Andrésson 1/0, Daði Örn Heimisson 0/1, Sergei Zak 0/1.
 
Brottvísanir:  SA 24 mín  /  Björninn 74 mín.
 
meðfylgjandi mynd er af Sigurði Árnasyni varnarmanni SA