SA - SR umfjöllun

Skautafélag Akureyrar og Skautafélag Reykjavíkur áttust við á Íslandsmótinu í íshokkí og fór leikurinn fram á Akureyri strax að lokinni opnunarhátíð Vetraríþróttahátíðar ÍSÍ. Leiknum lauk með sigri SR sem gerðu átta mörk gegn fjórum mörkum heimamanna í SA.

Richard Tahtinen þurfti að gera breytingar á liði sínu þar sem Gauti Þormóðsson var í leikbanni. Í stað Gauta kom Egill bróðir hans inn í sóknina í 1. línu og Daniel Kolar var settur í sóknina í 2. línu.  

Leikurinn var fjörugur frá fyrstu mínútu og hart barist á báða bóga. Liðin skiptust á að sækja  en það voru gestirnir í SR sem höfðu frumkvæði í markaskoruninni en það var Egill Þormóðsson sem kom þeim yfir snemma leiks. SA-menn jöfnuðu með marki Rúnars Freys Rúnarssonar en aftur komst SR yfir, og aftur var það Egill Þormóðsson sem var á ferðinni fyrir þá. Undir lok fyrsta leikhluta jöfnuðu SA-menn aftur með marki frá Jóni B. Gíslasyni.

SR-ingar höfðu áfram frumkvæðið í öðrum leikhluta, skoruðu þrisvar án þess að heimamönnum tækist að svara og breyttu stöðunni í 2-5, þar af tvö á sömu mínútunni þegar um fjórar mínútur voru eftir af öðrum leikhluta. SA náði að minnka muninn í 3-5 undir lok annars leikhluta með marki Rúnars Freys Rúnarssonar.

 
Strax í upphafi þriðja leikhluta hleyptu SA-menn aftur spennu í leikinn þegar Jóhann Már Leifsson minnkaði muninn í 4-5. En SR-ingar gerðu útum leikinn og í annað skiptið náði liðið að skora tvö mörk á sömu mínútunni. Arnþór Bjarnason kom SR í 4-6 og  Daniels Kolar bætti síðan við öðru marki. Svavar Rúnarsson kláraði síðan endanlega málið fyrir SR-inga skömmu fyrir leikslok.

Af tólf mörkum leiksins voru átta skoruð þegar andstæðingurinn var manni undir (power play) sem sýnir að bæði þessi lið eru að ná góðum tökum á þess háttar spili.

SA-menn hefðu með sigri verið komnir í mjög góða stöðu hvað varðar úrslitakeppnina. Þess í stað hafa leikar jafnast aftur og mörkin fjögur sem SR-ingar höfðu í plús út úr leiknum gætu reynst þeim dýrmæt þegar á líður. Nú er hinsvegar komið frí í deildarkeppninni fram á þar næsta þriðjudag vegna landsliðsæfinga um komandi helgi. Tíminn verður vonandi nýttur til þess að kasta mæðinni og róa taugarnar, því líklegast hefur deildarkeppnin aldrei verið jafn spennandi og hún er núna.

 
Mörk/stoðsendingar SA
Rúnar Freyr Rúnarsson 2/0
Jón B. Gíslason 1/2
Jóhann Már Leifsson 1/0
Steinar Grettisson 0/2
Josh Gribben 0/1
Orri Blöndal 0/1

Brottvísanir SA: 28 mínútur

Mörk/stoðsendingar SR:

Egill Þormóðsson 3/0
Daniel Kolar 2/3
Þórhallur Viðarsson 1/3
Arnþór Bjarnason 1/2
Svavar Rúnarsson 1/0

Steinar Páll Veigarsson 0/1

Brottvísanir SR: 14 mínútur

Myndina tók Sigurgeir Haraldsson.

HH