SA - SR umfjöllun

Skautafélag Reykjavíkur vann í gærkvöld Skautafélag Akureyrar með 7 mörkum gegn 5 mörkum í leik sem fram fór á Akureyri. Leikurinn var nokkuð sérstakur fyrir þá ástæðu að þjálfarar beggja liða eru staddir erlendis á námskeiðum og fengu því aðtoðarþjálfarnir gott tækifæri á að reyna sig. Nokkuð brottfall var í liði SA-manna vegna veikinda og meiðsla þó að sjálfsögðu maður kæmi í manns stað.
Mikil markaveisla var í fyrstu lotu en þá voru sex mörk skoruð og höfðu SR-ingar öllu betur í veislunni því þeir gerðu 4 mörk gegn 2 mörkum heimamanna. Í annarri lotu róaðist leikurinn mikið og aðeins eitt mark var skorað og var þar á ferðinni Gauti Þormóðsson. Staðan því 2 – 5 eftir aðra lotu og fátt eitt sem benti til þess að norðanmenn væru að fara að gera eitthvað í leiknum. Í þriðju og síðustu lotu héldu mörkin áfram að hrúgast inn og þegar rétt rúmlega tvær mínútur lifðu leiks höfðu heimamenn náð að koma sér inn í leikinn og staðan orðin 5 – 6 og allt gat gerst. SA-menn reyndu sitt ítrasta til að jafna og þegar um mínúta var eftir af leiknum tóku þeir markmanninn af velli. Sú leikaðferð gekk ekki upp og þess í stað tryggðu SR-ingar sér tveggja marka sigur eftir að hafa skorað í autt mark SA-manna.

Mörk/stoðsendingar SA:
Sigurður S. Sigurðsson 1/2
Stefán Hrafnsson 1/1
Orri Blöndal 1/0
Einar Valentine 1/0
Jóhann Leifsson 1/0
Björn Már Jakobsson 0/1
Hilmar Leifsson 0/1

Refsimínútur SA: 2 mín.

Mörk SR:
Gauti Þormóðsson 3/2
Daniel Kolar 2/2
Steinar Páll Veigarsson 1/1
Guðmundur Björgvinsson 1/0

Refsimínútur SR: 12

Myndina tók Sigurgeir Haraldsson

HH