SA - SR umfjöllun

Þriðji leikur Skautafélags Akureyrar og Skautafélags Reykjavíkur fór fram í Skautahöllinni á Akureyri í gær. Leiknum lauk með sigri SA-manna sem gerðu 5 mörk gegn 4 mörkum SR-inga. Rétt eins og í öðrum leiknum, sem fram fór á miðvikudaginn, hófu SA-menn leikinn með miklum látum og á tæpum fimmtán mínútum í fyrstu lotu náðu þeir að skora fjögur mörk án þess að SR-ingar næðu að svara fyrir sig. Fyrstu tvö mörkin átti Ingvar Þór Jónsson og komu þau þegar jafnt var á með liðunum. Hin tvö mörkin gerðu Josh Gribben og Orri Blöndal og náði SA-liðið að nýta sér vel að SR-ingar tóku út refsingar á þeim tíma. SR-ingar náðu þó að klóra í bakkann áður en lotan var úti og var þar að verki Arnþór Bjarnason. Staðan því 4 – 1. Einhverjum varð á orði að þetta væru kunnuglegar tölur enda sama staða og í Laugardalnum frá því á miðvikudeginum.

Í 2. lotu dofnaði aðeins yfir leiknum um tíma en SR-ingar náðu þó að minnka muninn  því um miðja lotu með marki frá Gauta Þormóðssyni og staðan því orðin 4 – 2 heimamönnum í vil.

Fjör fór að færast aftur í leikinn strax í byrjun þriðju lotu enda voru ekki liðnar nema rúmlega 40 sekúndur af henni þegar þegar Steinar Páll Veigarsson minnkaði muninn fyrir SR-inga en þeir voru á þeim tíma einum manni fleiri á vellinum. SR-ingar nýttu sé svo aftur liðsmuninn þegar rúmlega fimm mínútur lifðu leiks og jöfnuðu leikinn með marki frá Daniel Kolar. Dramatíkin í hámarki og bæði lið reyndu sitt allra ýtrasta til að klára leikinn í venjulegum leiktíma en án árangurs. Gripið var til 10 mínútna framlengingar sem lýkur þó um leið og skorað er mark. Þar kláraði Josh Gribben dæmið fyrir SA-menn og var fögnuður þeirra mikill.

Staðan í einvíginu er því 2 – 1 SR-ingum í vil og strax í dag verður 4. leikurinn leikinn í Laugardalnum. Hann hefst klukkan 17.00 og ástæða er til að hvetja hokkíáhugafólk til að mæta enda hafa allir leikirnir fram til þessa verið spennandi fram á síðustu stundu og vonandi verður svo áfram. Norðanmenn og aðrir nærsveitamenn og þeir sem eiga ekki heimangengt á leikinn geta að sjálfsögðu fylgst með leiknum í textalýsingu en tengill er á hana hérna hægra meginn á síðunni.    

Mörk/stoðsendingar SA:

Ingvar Þór Jónsson 2/0
Josh Gribben 2/0
Orri Blöndal 1/0
Jón B. Gíslason 0/2
Björn Már Jakobsson 0/1

Brottvikningar SA: 24 mín.

Mörk/stoðsendingar SR:

Gauti Þormóðsson 1/2
Arnþór Bjarnason 1/0
Daniel Kolar 1/0
Steinar Páll Veigarsson 1/0
Þorsteinn Björnsson 0/2
Egill Þormóðsson 0/1

Brottvikningar SR: 42 mín.

Myndina tók Sigurgeir Haraldsson

HH