SA-eldri - Björninn umfjöllun.

SA-eldri og Björninn áttust við á laugardaginn í skautahöllinni á Akureyri. Leiknum lauk með sigri Bjarnastúlkna sem gerðu fjögu mörk gegn tveimur mörkum SA-eldri. Sömu lið léku um síðustu helgi í Egilshöll og þá fóru Bjarnarstúlkur einnig með sigur af hólmi en sá leikur endaði 4 - 3 Leikurinn var í jafnvægi framan af en að var Flosrún Vaka sem kom gestunum yfir strax á 3. mínutu eftir mikinn darraðadans fyrir framan mark SA-stelpna. Það sem eftir lifði lotunnar skiptust liðin á að sækja en fleiri urðu mörkin ekki.

Í annarri lotu hrúguðust mörkin inn og á endanum urðu þau fimm. Bjarnarstúlkur áttu fyrstu þrjú. Kristín Ingadóttir kom þeim yfir með laglegu marki í byrjun lotunnar eftir stoðsendingu frá Ingibjörgu Hjartardóttir. Um miðja lotu bætti Flosrún við sínu öðru marki og það var síðan Hrafnhildur Ólafsdóttir sem fullkomnaði Bjarnarþrennuna með marki eftir stoðsendingu frá Hönnu Rut Heimisdóttir. Staðan því orðin 0 - 4 og útlitið orðið svart hjá heimastelpum. Þær Vigdís Aradóttir og Sarah Smiley réttu þó hlut þeirra fyrir lok lotunnar. Lengra komust SA-stelpur þó ekki því ekkert mark kom í þriðju lotu og Bjarnarstelpur bættu því þremur stigum í pottinn.

Næsti leikur í kvennaflokknum er 24 nóvember og er það innbyrðis viðureign akureyrarliða.

Myndina tók Sigurgeir Haraldsson

HH