SA - Björninn úrslitaleikur um íslandsmeistaratitil.


Íslandsmeistarar 2013                                                                                                   Myndir: Sigurgeir Haraldsson

Úrslitaleikurinn í kvennaflokki á íslandsmótinu fór fram í gær en þar léku SA og Björninn. Leiknum lauk með sigri SA sem gerði 8 mörk gegn einu marki Bjarnarkvenna. Eins og fram kom í fyrri frétt okkar var ákveðið að leika einungis einn úrslitaleik á kvennamótinu að þessu sinni.  Það er því hægt að segja að þó nokkuð hafi verið lagt undir þó svo að lið norðankvenna hafi þetta tímabilið haft töluverða yfirburði í deildarkeppninni þetta árið.

Það var lítið um sóknarfæri í fyrstu lotu og komið aðeins fram yfir miðja fyrstu lotu þegar landsliðsnýliðinn Thelma María Guðmundsdóttir  braut ísinn fyrir SA konur. Áður en mínúta var liðin hafði Védís Áslaug Valdimarsdóttir komið SA í 2 – 0 og þannig var staðan þegar flautað var til leikhlés.

Bæði lið bættu í sóknarþungann í annarri lotu en staðan hélst óbreytt lengi vel. Það var ekki fyrr en tæpar tvær mínútur lifðu leiks í annarri lotu að SA-konur bættu við marki og var þar á ferðinni Linda Brá Sveinsdóttir.

Í þriðju og síðustu lotunni fór hinsvegar að síga töluvert á ógæfuhliðina fyrir Bjarnarkonur og þá sérstaklega í fyrri hluta lotunnar. SA-konur settu þá á þær fimm mörk og gerðu útum leikinn. Það var Birna Baldursdóttir sem opnaði markareikning þeirra en á eftir fylgdu mörk frá þeim Silvíu Rán- og Diljá Sif Björgvinsdætrum, Söruh Smiley og Lindu Brá Sveinsdóttir. Bjarnarkonur áttu hinsvegar lokaorð leiksins hvað markaskorun varðaði en mark þeirra gerði Sigríður Finnbogadóttir.

Með sigrinum náðu SA konur sínum fimmta íslandsmeistaratitli í röð sem verður að teljast glæsilegur árangur. Við óskum þeim að sjálfsögðu til hamingju með titilinn.

Mörk/stoðsendingar SA:

Linda Brá Sveinsdóttir 2/0
Védís Áslaug Valdimarsdóttir 1/2
Sarah Smiley 1/2
Thelma María Guðmundsdóttir 1/0
Birna Baldursdóttir 1/0
Silvíu Rán Björgvinsdóttir 1/0
Diljá Sif Björgvinsdóttir 1/0
Guðrún Blöndal 0/2
Sunna Björgvinsdóttir 0/2
Arndís Sigurðardóttir 0/1

Refsingar SA: 14 mínútur.

Mörk/stoðsendingar Björninn

Sigríður Finnbogadóttir 1/0
Harpa Dögg Kjartansdóttir 0/1

Refsingar Björninn: 4 mínútur.

HH