SA - Björninn umfjöllun

Skautafélag Akureyrar og Björninn léku í karlaflokki á Akureyri í gærkvöld. Leiknum lauk með sigri Bjarnarins sem gerði 5 mörk gegn 4 mörkum SA-manna. Rúmlega tvö ár eru síðan Björninn bar sigurorð af SA-mönnum og því sigurinn því kærkominn fyrir Bjarnarmenn.

Strax í fyrstu lotu litu 5 mörk dagsins ljós en unglingalandsliðsmaðurinn Brynjar Bergmann kom Bjarnarmönnum yfir snemma í leiknum. Norðanmenn svöruðu hinsvegar með tveimur mörkum frá Rúnari F. Rúnarssyni og Orra Blöndal. Annar ungur leikmaður í liði Bjarnarins, Falur Birkir Guðnason, jafnaði fyrir þá metin en áður en lotunni lauk skoraði Rúnar F. Rúnarsson sitt annað mark og jafnframt síðasta mark lotunnar. Staðan því 3 – 2 SA í vil.

Önnur lotan var öllu rólegri en hvort lið gerði eitt mark í henni. Trausti Bergmann  gerði mark Bjarnarmanna. Rúnar F. Rúnarsson fullkomnaði hinsvegar  þrennu sína með marki fyrir SA og staðan því 4 – 3 eftir tvær lotur.

Bjarnarmenn tryggðu sér hinsvegar sigurinn með tveimur mörkum í síðustu lotu en þar voru á ferðinni Trausti Bergmann og Matthías Skjöldur Sigurðsson. Fyrrnefndur Trausti hefur verið að koma sterkur inn í síðustu leikjum Bjarnarins og komið með góð mörk á mikilvægum augnablikum.

Mörk/stoðsendingar SA:

Rúnar F. Rúnarsson 3/0
Orri Blöndal 1/0
Jón B. Gíslason 0/2
Andri Freyr Sverrisson 0/1
Björn Már Jakobsson 0/1

Refsimínútur: 68 mín.

Mörk/stoðsendingar Björninn:

Trausti Bergmann 2/0
Brynjar Bergmann 1/0
Falur Birkir Guðnason 1/0
Matthías S. Sigurðsson 1/0
Úlfar Jón Andrésson 0/1
Brynjar F. Þórðarson 0/1
Hjörtur G. Björnsson 0/1

Refsimínútur Bjarnarins: 24 mín.

HH