SA - Björninn þriðji leikur í úrslitum

Úr leik liðanna
Úr leik liðanna

Skautafélag Akureyrar bar í gærkvöld sigurorð af Birninum í þriðja leik liðanna í úrslitakeppni karla um íslandsmeistaratitilinn. Leiknum lauk 5 – 4 eftir framlengingu og vítakeppni þar sem Björn Már Jakobsson skoraði markið sem skildi liðin að.

SA-menn sóttu meira í fyrstu lotunni og uppskáru tvö mörk áður en lotan var hálfnuð en það voru jafnframt einu mörkin sem skoruð voru. Fyrra markið átti fyrirliði þeirra Andri Már Mikaelsson en það síðara Jóhann Már Leifsson.

Fljótlega í annarri lotu bætti Stefán Hrafnsson við þriðja marki SA-manna og staða Bjarnarmanna orðin æði erfið. Þeir náðu þá að minnka muninn fljótlega með marki frá Hirti Geir Björnssyni og áður en lotan var úti bætti Úlfar Jón Andrésson við marki og staðan orðin 3 – 2 heimamönnum í vil.

Daniel Kolar jafnaði síðan metin fyrir Björninn um miðja þriðju og síðustu lotu og skömmu síðar kom fyrrnefndur Hjörtur Geir Björnsson Birninum yfir í fyrsta skipti í leiknum. Rúmum fjórum mínútum fyrir leikslok jafnaði Lars Foder síðan metin fyrir SA-menn. Lokamínúturnar voru æsispennandi en hvorugu liðinu tókst að skora og sú varð einnig raunin í framlengingunni sem kom í kjölfarið.

Vítakeppni var því staðreynd en hún fór á eftirfarandi hátt:

4:4 Sergei Zak - varið.
4:4 Andri Már Mikaelsson – varið.
4:4 Daniel Kolar - skorar ekki.
4:4 Lars Foder – skorar ekki.
4:5 Úlfar Jón Andrésson – skorar.
4:5 Jóhann Már Leifsson – varið.
4:5 Ólafur Hrafn Björnsson – skorar ekki.
5:5 Stefán Hrafnsson – skorar.
5:5 Falur Guðnason skorar – varið.
6:5 Björn Már Jakobsson – skorar.

Leikurinn var hin besta skemmtun fyrir fjölmarga áhorfendur sem lögðu leið sína í höllina og hvöttu sitt lið.

Mörk/stoðsendingar SA:

Andri Már Mikaelsson 1/1
Jóhann Már Leifsson 1/1
Stefán Hrafnsson 1/1
Lars Foder 1/0
Orri Blöndal 0/1
Ingvar Þór Jónsson 0/1

Refsingar SA: 10 mínútur.

Mörk/stoðsendingar Björninn:
Hjörtur Geir Björnsson 2/0
Daníel Kolar 1/1
Úlfar Jón Andrésson 1/0
Sergei Zak 0/2
Ólafur Hrafn Björnsson 0/1

Refsingar Björninn: 28 mínútur.

Mynd: Sigurgeir Haraldsson

HH