SA - Björninn fyrsti leikur í úrslitum

Úr leik gærkvöldsins
Úr leik gærkvöldsins

Fyrsti leikur Skautafélags Akureyrar og Bjarnarins í úrslitakeppni karla fór fram á Akureyri í gærkvöld. Leiknum lauk með sigri Bjarnarins sem gerði fjögur mörk gegn þremur mörkum SA-manna.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í fyrstu lotu en það voru SA-menn sem skoruðu eina mark lotunnar og var þar að verki Sigurður Sveinn Sigurðsson. Á þeim tímapunkti voru norðanmenn einum fleiri á ísnum og reyndar fór svo að öll mörk þeirra komu þegar Bjarnarmenn voru í refsiboxinu. Fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrsta leikhluta og staðan því 1 – 0 norðanmönnum í vil að honum loknum.

Í annarri lotunni juku Bjarnarmenn í sóknarþungann og um miðja lotu jafnaði Daniel Kolar fyrir þá metin með góðu skoti. Lokamínúturnar urðu síðan SA-mönnum dýrar því á síðustu einni og hálfri mínútu lotunnar settu Bjarnarmenn tvö mörk. Það fyrra átti Sergei Zak eftir fyrirgjöf frá Daniel Kolar en það síðarara Gunnar Guðmundsson.

SA-menn bættu því í sóknina í þriðju og síðustu lotunni og á stuttum kafla, fljótlega í lotunni, jafnaði Andri Már Mikaelsson fyrir þá metin af miklu harðfylgi með tveimur mörkum. Það var svo Daniel Kolar sem tryggði Birninum sigur með marki rétt eftir miðja lotu en þá nýttu Bjarnarmenn sér að vera einum fleiri á ísnum.

Þetta er sjöundi leikurinn sem liðin leika í vetur og í þeim öllum hafa leikirnir unnist með einu marki sem verður að teljast nokkuð óvenjulegt. Það ætti því að vera spennandi leikir framundan og ástæða til að hvetja fólk til að fjölmenna en næsti leikur er á morgun í Egilshöll og hefst klukkan 19.00. Þriðji leikurinn er síðan á Akureyri nk. laugardag en hann hefst klukkan 17.00.

Mörk/stoðsendingar SA:

Andri Már Mikaelsson 2/0
Sigurður S. Sigurðsson 1/0
Lars Foder 0/1
Sigurður Reynisson 0/1

Refsingar SA: 10 mínútur.

Mörk/stoðsendingar Björninn:

Daniel Kolar 2/1
Sergei Zak 1/1
Gunnar Guðmundsson 1/0
Hjörtur Geir Björnsson 0/1
Birkir Árnason 0/1
Matthías S. Sigurðsson 0/1
Úlfar Jón Andrésson 0/1

Refsingar Björninn: 16 mínútur.

Mynd: Sigurgeir Haraldsson

HH