SA Ásynjur - SR umfjöllun

Frá leik liðanna á laugardaginn
Frá leik liðanna á laugardaginn

Einn leikur fór fram í  meistaraflokki um helgina en þá mættust SA Ásynjur og SR í kvennaflokki. Leiknum lauk með sigri Ásynja sem gerðu þrjú mörk gegn einu marki SR-kvenna.

Þetta er í annað skiptið á árinu sem liðin mætast en á fyrstu dögum ársins mættust liðin og þá unnu Ásynjur stórsigur með fimmtán mörkum gegn tveimur. Leikurinn að þessu sinni var því öllu meira spennandi og hart barist á báða bóga. 

Það var ekki fyrr en nálgaðist miðjan leik sem Ásynjur gerðu sitt fyrsta mark en þar var á ferðinni Birna Baldursdóttir með skoti af stuttu færi eftir sendingu frá Guðrúnu Blöndal. Þær stöllur endurtóku svo leikinn stuttu síðar nema hvað að þessu sinni var færið öllu lengra. Með þetta forskot 2 - 0 fóru Ásynjur inn í leikhlé en þær höfðu verið öllu sókndjarfari í lotunni.
Leikurinn var hinsvegar ágætlega jafn í þriðju lotunni, rétt einsog hann hafði verið í þeirri fyrstu. Á sjöundu mínútu þriðju lotu urðu varnarmanni Ásynja á mistök sem Laura Murphy var fljót að nýta sér og staðan orðin 2 - 1 og allt gat gerst. Það voru hinsvegar Ásynjur tryggðu sér sigurinn um átta mínútum fyrir leikslok. Þar var á ferðinni Katrín Ryan með skot af stuttu færi eftir sendingu frá Guðrúnu Blöndal sem í leiðinni fullkomnaði stoðsendingarþrennu sína.

Mörk/stoðsendingar SA Ásynjur:
Birna Baldursdóttir 2/0
Katrín Ryan 1/0
Guðrún Blöndal 0/3

Refsingar Ásynja: 6 mínútur.

Mörk/stoðsendingar SR:

Laura Murphy 1/0
Steinunn Erla Sigurgeirsdóttir 0/1

Refsingar SR: 4 mínútur.

Mynd: Elvar Freyr Pálsson

HH