Rúmenum rúllað upp

Íslenska landsliðið í íshokkí skipað leikmönnum 18 ára og yngri gerði sér lítið fyrir og lagði gestgjafana, Rúmena með 10 mörkum gegn 1 í þriðja leik liðsins á heimsmeistaramótinu í íshokkí.  Ísland hefur aldrei áður lagt Rúmeníu að velli og venjulega beðið afhroð og skemmst er að minnast viðureignar þjóðanna í U20 í Póllandi í fyrra þegar þegar Rúmenía vann 22-0.
 
Leikmenn íslenska liðsins fengu góða hvíld í gær og mættu ferskari en nokkru sinni fyrr til leiks í kvöld.  Þeir hófu leikinn af miklum krafti og stjórnuðu leiknum frá upphafi.  Gauti Þormóðsson gaf tóninn og fór á kostum í upphafi leiksins og setti þrjú gullfalleg mörk í 1. lotu hvert öðru fallegra.  Annars voru allir leikmenn að spila sinn besta leik, sýndu mikill viljastyrk og voru fyrstir í alla pekki.
 
Staðan eftir 1. lotu var 6 – 1 en heimamönnum hafði tekist að skora eitt mark í “power play” í fyrsta skoti liðsins á íslenska markið, en eftir það skellti Ómar Smári í lás og lengra komust þeir rúmensku ekki.  Sergei spilaði eins og mögulegt var á þremur línum en fram til þessa hefur mikið mætt á fyrstu tveimur línunum.  Leikmenn 3. línu sýndu allar sínar bestu hliðar en það var einmitt Guðmundur Guðmundsson sem opnaði markareikning liðsins snemma í 1. lotu.  Sindri Már Björnsson lét einnig af sér kveða eftir langa setu á bekknum og skoraði í sinni fyrstu eða annarri snertingu.
 
Emil Alengard átti einnig góðan leik og skoraði sitt fyrsta mark fyrir Íslands hönd eftir góða sendingu frá Gauta Þormóðssyni.  Sergei breytti einmitt leikskipulaginu fyrir þenna leik og setti Gauta, Emil og Úlfar saman í 1. línu en fram til þessa höfðu þeir einungis spilað saman í “power play”.  Patrick skoraði tvö frá bláu línunni, Úlfar Andrésson skoraði eftri mikla baráttu og þvögu við mark Rúmenana og Gunnar Guðmundsson var með afbragðs skotnýtingu því hann skaut bara einu sinni á markið og skoraði.
 
2. lota frá 2 – 0 og 3. lota einnig, lokastaðan 10 – 1 og þjóðsöngurinn hljómaði dásamlega í höllinni.  Næstu mótherjar liðsins eru Litháar og næsta víst að þeir verða harðir í horn að taka.