Pistill frá Rúmeníu

Hér kemur smá pistill frá Rúmeníu, hann var skrifaður í fyrradag en mjög erfiðlega hefur gengið að komast í internetsamband.
 
Ferðalagið hingað út gekk ágætlega fyrir utan smávægilegar tafir hér og þar vegna öryggisráðstafana á flugvöllum.  Þrátt fyrir að hafa tékkað töskur liðsins alla leið frá Keflavík til Búkarest fóru nokkrar út í París en sem betur fer rákum við augun í þær og gátum tekið þær með okkur.  Þegar á leiðarenda var komið kom þó í ljós að ein taska hafði glatast, ferðataskan hans Steinars Páls.  Hún er nú fundin er á leið til okkar.
 
Við lentum hér í Búkarest um kl. 21:00 og fórum beint í skautahöllina á æfingu enda gott að hreyfa fæturna aðeins eftir langt ferðalag.  Rúmenarnir hafa ekki slitið sér út við þrif og viðhald skautahallarinnar að tilefni keppninnar en í mótttökunefndinni voru tvær sællegar rottur.  Fnykurinn í klefunum og á kömrunum hefur náð nýjum hæðum en margir leikmannanna eru orðir öllu vanir eftir fyrri ferðir um þennan heimshluta.
 
Hótelið sem við gistum á er sögufræg bygging, gamall kastali á eyju og flesta staði mjög tilkomumikil bygging þó hún megi muna fífil sinn fegri.  Gangar eru langir og lofthæðin í sumum herbergjum er um 6m.
 
Fyrsti leikurinn var gegn Króötum og tapaðist hann 6 – 2 en tölurnar gefa ekki rétta mynd af leiknum.  Þegar um 6 mínútur voru eftir af leiknum var staðan 3 – 2 en þá komu 3 óþarfamörk á síðustu mínútunum.  Strákarnir börðust vel og leikurinn var skemmtilegur á að horfa.  Við vorum reyndar allt of mikið í boxinu og ljóst eftir fyrsta leik að fairplay bikarinn verður ekki okkar í ár.  Þórhallur Alfreðsson var harður í horn að taka og fékk tvisvar sinnum 10 mínútna dóma og þar með sjálfkrafa brottvísun í leik.  Gauti Þormóðsson skoraði bæði mörk liðsins.
 
Í dag voru mótherjar okkar Ungverjar og þrátt fyrir ágæta byrjun var staðan 3 – 1 okkur í óhag, Gauti skoraði okkar mark eftir góðan undirbúning Emils Alengard og markið kom þegar við vorum einum færri.  2. lota var einnig erfið og tapaðist 4 – 0 en í síðustu lotunni brettu okkar menn upp ermar og unnu 1 – 0, markið skoraði fyrirliðinn Birkir Árnason með góðu stoti frá bláu línunni.  Sama var upp á teningnum í þessum leik og þeim fyrsta, alltof mikið af brottvísunum.
 
Á morgun er frídagur hjá öllum liðunum og stefnan tekin á bæjarrölt og skoðunarferðir.  Strákunum líður vel og allir lausir við meiðsli.  Reyndar varð eitt óhapp í dag þegar læknir liðsins, Gauti Arnþórsson fékk pökkinn í hausinn og fékk skurð á ennig.  Var hann fluttur á spítala og saumaður saman og lítur nú frekar út sem leikmaður en læknir.