Pistill 5

Mótsstjórnin hefur samþykkt að veita okkur verðlaunin strax eftir leikinn þrátt fyrir að hefðin sé auðvitað sú að hafa sameiginlega verðlaunaafhendingu í lok mótsins.  Við hins vegar þurfum að ná flugi og förum áður en síðasti leikur mótsins fer fram og höfum aðeins tæpa þrjá tíma til að koma okkur úr göllunum, pakka, vigta og koma okkur um borð í flugvélina.  Við erum búnir að setja upp vigtina í búningsklefanum og munum ganga þannig frá töskunum að þær séu ekki meira en 23kg hver.  Þetta verður aðeins meiri kúnst í þetta skiptið þar sem gallarnir verða blautir og því töluvert þyngri við brottför en komu.  Jafnframt verðum við vonandi með gullverðlaunin um hálsinn en þau munu ekki íþyngja okkur.

Strákarnir eru tilbúnir í átökin og svo virðist sem þeir séu einbeittir fyrir leikinn.  Það getur verið erfitt að halda einbeitingu eftir 3 auðvelda leiki og þurfa svo loksins að spila hreinan úrslitaleik við sterka mótherja sem Kínverjar svo sannarlega eru.