Pistill 2

Menn eru hins vegar árrisulir og þegar Bjössi og Steindór er farnir að drífa sig út í göngutúra kl. 7:00 morgnanna þá veit maður að ennþá er eitthvað öfugsnúið.  Æfing nr. 2 gekk töluvert betur en fyrsta æfingin og hlutirnir eru teknir að smella saman.  Jóhann Leifsson er loksins kominn til okkar en hann kom loksins í gærkveldi eftir heldur langt ferðalag hingað eftir að hafa misst að fluginu í Toronto.   Vegna flugvélabilana þurfti hann að fara á milli allra helstu flugavalla Nýja Sjálands eða frá Auckland til Wellington og þaðan til Christchurch og svo hingað til Dunedin.

Fyrsti leikurinn er í dag gegnt Tyrkjum og strákarnir eru vel undirbúnir fyrir átökin.  Allir eru við hestaheilsu, engin veikindi og engin meiðsli.  Liðið tók stutta æfingu nú í morgunsárið og það var fyrsta æfingin með fullskipað lið og nú er komin góð mynd á liðið, þotuleggirnir farnir og höfuðin rétt skrúfuð á.

Leikurinn er kl. 19:00 að staðartíma sem er kl. 06:00 að íslenskum.   Við munum þó þurfa að fara í höllina kl. 14:00 í dag til þess að taka þátt í opnunarathöfn mótsins þar sem liðið þarf að fara í skautana og treyjurnar og hlíða á ræðuhöld í nokkrar mínútur.  Menn eru ekkert ofsalega spenntir fyrir þessu en taka þessu eins og hverju öðru hundsbiti.

Öll liðin eru nú komin hingað á heimavistina til okkar og hér því orðið töluvert líflegra en fyrstu dagana.  Það er gaman að segja frá því að drengirnir okkar fengu mikið hrós frá mótshöldurum og húsráðendum hér fyrir vinalegt viðmót og góða umgengni og haft var á orði að íslenska liðið bæri af öðrum liðum.   Það voru kannski ekki allir hoppandi glaðir í fyrstu með aðstöðuna en eftir 5 mínútur voru allir búnir að jafna sig, sérstaklega þegar búið var að koma á netsambandi og gefa öllum að borða.  Góður matur og gott netsamband er allt sem þarf.  Hin liðin eru hins vegar enn í fýlu yfir þessu og vonandi verða þau það bara áfram á meðan við einbeitum okkur að því að vinna þetta mót.

Ekki er vitað með netútsendingar frá leiknum í dag, en það kemur í ljós þegar leikur hefst.  Áfram Ísland!