Ósigur gegn Eistum, Ísland 2 - Eistland 7.

Samstaða.  Ljósmynd Kristján Maack
Samstaða. Ljósmynd Kristján Maack

Í kvöld var komið að þriðju viðureign íslenska liðsins á HM í íshokkí sem fram fer í Laugadalnum.  Að þessu sinni voru mótherjarnir Eistar, en þeir voru „rankaðir“ efstir fyrir þetta mót, en þeir voru að koma niður úr 1. deild eftir stutt stopp þar.  Ísland spilaði síðast við þá þegar þeir unnu 2. deildina á sínum heimavelli í Narva árið 2010.

Leikurinn fór af stað með miklum látum og okkar strákar stóðu vel í eldsnöggum Eistunum en það voru gestirnir sem opnuðu markareikninginn á strax á 3.mínútu.  Íslensku strákarnir létu þó ekki deigan síga og jöfnuðu leikinn á 13.mínútu en þar var á ferðinni Robin Hedström eftir góðan undirbúning Emils Alengard sem fékk sendinguna frá Ólafi Björnssyni.  Þessir þrír skipa fyrstu línu landsliðsins og hafa náð vel saman sem af er móti.  Eistarnir bættu svo við öðru marki fyrir lok lotunnar en alveg viðunandi staða gegn sterku liði, 2 – 1 eftir fyrstu lotu.

Í 2.lotu var á brattann að sækja og Eistar settu þrjú mörk án þess að Ísland næði að svara fyrir sig.  Þetta var þá ekki í samræmi við fjölda skota því að í fyrstu lotunni tóku Eistar 24 skot á móti 7 frá Íslandi en í annarri lotunni var Íslands skráð með 9 skot á móti 8 frá Eistum.

Staðan var því 5 – 1 þegar 3. og síðasta lotan hófst og ljóst að það var við ramman reip að draga.  Eistar juku forskot sitt í 6 -1 á 49. mínútu en Emil náði að klóra aðeins í bakkann fyrir okkur skömmu síðar eftir sendingu frá Birni Róberti Sigurðssyni, yngsta leikmanni íslenska liðsins.  Björn Róbert sem keppir nú í fyrsta skiptið með fullorðinslandsliði krækti sér þarna í sitt fyrsta stig, en hann hefur staðið sig vel á mótinu.

Eistar bættu við síðasta naglanum í kistuna fyrir lok lotunnar og niðurstaðan 7 – 2 ósigur gegn firnasterku liði.  Það er alltaf leiðinlegt að tapa en við eigum ennþá eitthvað eftir í að ná Eistum og í kvöld vann sterkara liðið.

Á morgun er frídagur en á þriðjudaginn tekur við gríðarlega mikilvægur leikur gegn Spáni.  Spánn er annað lið sem Ísland hefur ekki unnið í fullorðinsflokki en nokkur ár eru síðan liðin mættust síðast og strákana hungrar í sigur.  Við fyllum höllina á þriðjudaginn og hjálpum strákunum að krækja í bronsverðlaun.  Áfram Ísland.