Í nóvember síðastliðnum undirrituðu þáverandi mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, og þáverandi forseti ÍSÍ, Lárus Blöndal, undir samning um stóraukningu fjármagns frá ríkinu til afreksstarfs árið 2025. Innan þessa samnings var gert ráð fyrir kostnaðarþátttöku í landsliðsverkefnum ungmenna. Þessi þáttur hefur verið í undirbúningi í nokkurn tíma og var kynntur lauslega á íshokkíþingi í maí.
Íshokkísambandið sótti um styrk til Afrekssjóðs og Afreksmiðstöðvar til að mæta þeim útgjöldum sem þátttakendur í ungmennaverkefnum sambandsins lögðu út fyrir á tímabilinu janúar til mars 2025. Þar er um að ræða U18 ára lið karla og kvenna ásamt U20 ára lið karla.
Umsókn Íshokkísambandsins hefur verið staðfest og samþykkt og verður til afgreiðslu á næstu dögum. því er nú óskað eftir því við leikmenn og ef aldur leikmanna er yngri en 18 ára, þá forráðamenn þeirra, að þeir gangi frá umsókn (eyðublað í takkanum hér að neðan) sem nálgast má hér í fréttinni og sendi umsóknina útfyllta inn til skrifstofu ÍHÍ á netfangið ihi@ihi.is eða á vidarg@ihi.is fyrir 10. ágúst næstkomandi.
Gera má ráð fyrir að að styrkgreiðslur til leikmanna og forráðamanna verði greiddar út eftir sumarleyfi undir lok ágústmánaðar. Eftir nokkru er að slægjast en styrkgreiðsla á hvern einstakling getur numið tugum þúsunda. Stjórnarfólk aðildarfélaga er hvatt til þess að ýta á landsliðsfólk sitt að láta vita af þessu ferli og að opið sé fyrir umsóknir.