Nýárskveðja

Kæru félagar

Það er óhætt að segja að undanfarið ár hafi töluvert á dagana drifið hjá íshokkí hreyfingunni.  Þrátt fyrir ýmiss erfið mál einsog lyfjamál, agamál og önnur mál sem má telja miður að rati á síður blaðanna og yfirtók nærri því alla jákvæða og góða umræðu um íshokkí þá hefur okkur samt sem áður tekist að halda góðum sjó sem íþróttahreyfing.   Mikil fjölgun hefur átt sér stað í yngriflokkum félaganna, sérstaklega á Akureyri en einnig í Reykjavík, og verður það að teljast afar jákvætt. Fjölgun í yngri flokkum kvenna er sérstaklega ánægjuleg þróun.

Árangur landsliðanna okkar á síðasta keppnistímabili var aðeins undir væntingum en A-landslið karla og U18 landsið karla féllu niður um deild þrátt fyrir góðann vilja og mikla vinnu náðum við ekki settum markmiðum um að halda okkur uppi í þeim deildum.  Þetta gefur okkur ákveðin tækifæri á að bíta í skjaldarrendur, setja undir okkur hausinn, keyra áfram og vinna okkur aftur upp í þær deildir sem við eigum heima. Árangur A-landsiðs kvenna verður að teljast viðunandi í ljósi þess að því sem næst reyfarakend atburðarrás átti sér stað þegar í ljós kom að ráðinn þjálfari átti ekki þess kost að vera með liðinu frá upphafi móts og var því brugðið á það ráð að skipta henni út hið snarasta og fá inn reynslubolta úr íslensku íshokkí, Richard Tahtinen, til að taka sér hlé frá störfum i Bretlandi og mæta með A-landsliði kvenna á mótið á Spáni.  3.sætið var niðurstaðan.

Í upphafi árs gaf stjórn UMFK Esju út tilkynningu um að þau hygðust ekki taka þátt í Íslandsmóti karla á núverandi tímabili (2018/2019).  Aðstöðuleysi er þar fyrst og fremst um að kenna þar sem UMFK Esja gat ekki hafið barnastarf í Skautahöllinni í Laugardal né í Egilshöll þar sem ís tímar þar fyrir barna og unglingastarf eru fullir og ríflega það í sumum flokkum.  

Þetta styrkir mig ennfrekar í þeirri trú að ný skautaaðstaða er forsenda nýs félags og nýrra liða inn í íslenskt íshokkí í framtíðinni og til frambúðar.  Íshokkíhreyfingin verður að leggjast á eitt í því að koma upp einu eða fleiri skautasvellum á Íslandi innan næstu 10 ára til þess að efla og stækka íþróttina og koma henni upp á meðal þeirra topp 10 íþrótta sem krakka vilja og geta æft og stundað.

Núna í byrjun janúar eru lokaskrefin tekin í undirbúningi IIHF HM U20-mótsins sem haldið verður í Skautahöllinni í Laugardal dagana 14-20. janúar.  Þátttökuþjóðir auk Íslands eru Ástralía, Búlgaría, Nýja Sjáland, Kína, Kínverska Taipei, Suður Afríka og Tyrkland. Sannkölluð íshokkíveisla er í vændum þar sem 4 leikir verða spilaðir á dag ásamt æfingum og öðru tilstandi sem er  í kringum svona mót. Ég hvet alla áhugamenn og konur um íshokkí að verða sér út um vikupassa á mótið á tix.is hið snarasta og gulltryggja sér sæti á þessa leiki sem leiknir verða því að þeir verða, án efa, afar spennandi.  Allir leikir Íslands eru á mjög góðum tíma eða kl.17:00 alla leikdagana og því nánast skyldumæting fyrri íshokkíáhugafólk.

Að lokum vil ég fyrir hönd stjórnar og framkvæmdastjóra ÍHÍ óska ykkur gleðilegs nýs hokkíárs og farsældar á nýju ári og þakka fyrir gott samstarf á árinu sem er að líða.

Formaður íshokkísambands Íslands