Naumt tap hjá karlalandsliðinu

Í kvöld spilaði karlalandsliðið sinn fyrsta leik á heimsmeistaramótinu í  íshokkí í Serbíu.  Andstæðingarnir voru Belgar sem fyrirfram voru taldir miklu sigurstranglegri enda hefur íslenska liðið mátt sætta sig við 10 marka tap gegn þeim í síðustu tveimur viðureignum.  Í kvöld var þó annað upp á teningnum því leikurinn var jafn og spennandi frá upphafi til enda.  
Belgarnir byrjuðu betur og komust í 2 - 0 áður en Jón Gíslason svaraði fyrir íslenska liðið með  góðu marki eftir  sendingar frá Birki Árnasyni og Jónasi Breka Magnússyni.  Belgarnir juku muninn eftir einnar mínútu leik í 2. lotu en 5 mínútum síðar minnkaði Birkir Árnason muninn eftir sendingar frá Jóni Gísla og Birni Má Jakobssyni.  Fleiri mörk voru ekki  skoruð í lotunni og því var staðan 3 - 2 þegar 3. lota hófst.
Hart var barist í 3. lotu og þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af leiknum hafði ekkert mark verið skorað.  Þá komst íslenska liðið í  kjöraðstöðu til að  minnka muninn þegar Belgar fengu dæmd á sig brot í tvígang og íslendingar því 5 - 3.  Í staðinn fyrir að nýta sér mismuninn fékk Daníel Eriksson dæmt á sig klaufalegt brot og vísað í sturtu.  Belgarnir borguðu fyrir sig með því að auka muninn í 4 - 2 þegar um 50 sek voru eftir.  En okkar menn voru ekki hættir og Jón Gíslason minnkaði muninn í 4 - 3 nokkrum sekúndum síðar eftir sendingar frá Jónasi Breka og Birni Má Jakobssyni.  Fleiri voru mörkin ekki en naumt var það, svekkjandi að tapa leik en spennandi og skemmtilegur leikur engu að síður.
Næsti leikur verður á morgun gegn Kóreu en þeir eru almennt taldir á svipuðu stigi og við.