Mexíkó sigraði 6 - 4

Það verða að teljast gríðarleg vonbrigði að íslenska liðið tapaði síðast leik sínum á mótinu gegn Mexíkó.  Það voru afleitar upphafsmínútur sem réðu úrslitum í leiknum því áður en íslenska liðið vissi af var staðan orðin 4 - 0 og allt í pati.
Jónas Breki Magnússon minnkaði muninn eftir sendingar frá Steinari Grettissyni og Jóni Gíslasyni og þannig stóðu leikar eftir 1. lotu, 4 - 1.
Í 2. lotu snéru okkar menn leiknum við og unnu lotuna 3 - 1 með mörkum frá Jónasi Breka, Birgi Hansen og Ingvari Jónssyni.  Staðan var þá orðin 5 - 4 fyrir síðustu lotuna og útlitið bjart a.m.k. miðað við frammistöðu liðsins í 2. lotu.  Í 3. lotu gekk lítið upp og hvorugu liðinu tókst að skora framan af.  Þegar um mínúta var eftir af leiknum var markmaður íslenska liðsins dreginn af velli og sóknarmönnum fjölgað í staðinn til þess að freista þess að jafna leikinn.  Það gekk ekki en hins vegar náðu Mexíkóar pekkinum og náðu að lauma honum í tómt markið og því urðu lokatölu 6 - 4, Mexíkó í vil.
Það var svekkjandi að missa dampinn í síðasta leik eftir annars frábæra frammistöðu á sterku móti.  Aldrei hafa viðeignirnar verið eins jafnar og nú en samt vantar herslumuninn.  Liðið hélt sér í deildinni og nú þýðir ekkert annað en að setja markið hærra á næsta ári.
Þegar á heildina er liðið mega strákarnir vera sáttir við frammistöðu sína, þeir börðust virkilega vel í öllum leikjum ef frá er talin fyrsta lota gegn Mexíkó.  Meiðsli voru farin að segja til sín í hópnum á endasprettinum og þá sérstaklega hjá varnarmönnunum sem mikið var búið að mæða á mótinu.  Áfram Ísland