Meira um Litháen - Ísland

Síðasti leikur U20 Heimsmeistaramótsins í Litháen fór ekki eins og við hefðum kosið en leikurinn var engu að síður fjörugur og skemmtilegur óhorfs.  Skautahöllin í Elekrenai var fullskipuð og heimamenn fengu mikinn stuðning frá áhorfendum.  Það voru Litháar sem riðu á vaðið og skoruðu fyrsta mark leiksins á 7. mínútu en Emil Alengard jafnaði leikinn fyrir Ísland á 18. mínútu eftir stoðsendingu frá Arnþóri Bjarnasyni og fleiri urðu mörkin ekki í 1. lotu.
 
Í 2. lotu gekk hvorki né rak hjá okkar mönnum og Litháar skoruðu þrjú mörk sem hefðu ekki þurft að koma m.a. eitt þar sem við vorum einum fleiri.  Á meðan elti óheppnin íslenska liðið sem skaut t.d. þrisvar sinnum í stöng.  Staðan var því ekki gæfuleg eftir aðra lotu, 4 – 1.  3. lotan var mjög jöfn og íslenska liðið gerði hvað eftir annað harða atlögu að marki Litháa en litháenski markvörðurinn Lukas Jaksys varði allt sem að markinu kom enda var hann í mótslok valinn besti markmaður mótsins.  Íslenska liðið skaut til að mynda 36 sinnum á mark Litháa en þeir aðeins 29 sinnum á okkar mark.
 
Þegar tvær og hálf mínúta var eftir af leiknum juku Litháar forskot sitt í 5 – 1 og ljóst að 2. sætið yrði okkar hlutskipti.  Þegar rétt rúm mínúta var eftir af leiknum fékk Orri Blöndal sína fyrstu skiptingu í leiknum, brá sér rétt inn fyrir bláu línuna og hamraði pökkinn upp í skeytin nánast í sinni fyrstu snertingu eftir sendingar frá Elmari Magnússyni og Daniel Eriksson.  Fleiri urðu mörkin ekki í leiknum og lokastaðan 5-2.
 
Fyrirliði íslenska liðsins, Jón Ingi Hallgrímsson var valinn maður leiksins í leikslok.  Á lokaathöfninni voru veitt ýmiss verðlaun og þar var Birkir Árnason valinn besti varnarmaður mótsins og Emil Alengard fékk verðlaun fyrir að vera stigahæsti leikmaður mótsins (samanlögð mörk og stoðsendingar).  Emil var jafnframt valinn besti leikmaður íslenska liðsins á mótinu.
 
Strákarnir geta borið höfuðið hátt eftir þetta mót.  Þeir stóði sig vel og voru landi og þjóð til sóma.  Markmiðið var að komast upp úr riðlinum og 2. sætið tryggði okkur þann farmiða.  Síðasti leikurinn gegn heimamönnum var leikurinn um gullið og fyrirfram var vitað að þetta fyrrum Sovétlýðveldi yrði erfiður ljár í þúfu enda þjóð með mikla hefð og reynslu að baki í íþróttinni.  Strákarnir áttu í fullu tré við þá og ýmsar ástæður voru ræddar í leikslok fyrir ósigrinum.  Þess má geta að Ísland spilaði daginn fyrir úrslitaleikinn við Búlgaríu sem tók töluvert á þrátt fyrir að tölurnar sýni annað, og sá leikur fór fram að kvöldi á meðan Litháar áttu frí þann daginn og mættu því ferskir til leiks á meðan okkar menn fundu lítillega fyrir fyrri leiknum.  Litháenska liðið var búið að dvelja saman í Elektrenai í einn og hálfan mánuð fyrir keppnina og spila 11 alþjóðlega leiki á þeim tíma sem skiptir gríðarlega miklu máli fyrir keppni sem þessa.
 
En þetta eru auðvitað allt afsakanir, við hefðum hæglega getað unnið en töpuðum einni lotu á öllu mótinu og það kostaði okkur gullið.  Svona eru nú íþróttirnar, allt getur gerst.  Við tökum þá bara næst – Áfram Ísland.
 
Mörk og stoðsendingar
Emil Alengard 1/0, Orri Blöndal 1/0, Arnþór Bjarnason 0/1, Elmar Magnússon 0/1.
 
Brottvísanir
Ísland: 40 mín þar af einn 10 mínútna dómur.  Litháen: 38 mín þar af einn 10 mínútna dómur.