Meira um faraldsfætur

Einsog við sögðum frá hérna í gær er alltaf eitthvað um að íslenskir hokkíspilarar fari erlendis til lengri eða skemmri tíma til að spila hokkí. Þetta er að sjálfsögðu hið besta mál þó að íþróttin sé tiltölulega lítil og finni fyrir því að missa góða leikmenn. Með þessu ná þessir leikmenn að víkka sjóndeildarhringinn, æfa með öðrum leikmönnum og hjá nýjum þjálfurum. Einnig gefur þetta leikmönnunum tækifæri á að sjá hvar þeir standa miðað við jafnaldra sína erlendis.
 
Í undantekningar tilvikum hefur borið á því að gert sé lítið úr þessum tilraunum leikmanna til að skoða íshokkíheiminn utan Íslands. Talað hefur verið um að menn hafi komið heim með skottið milli lappanna og fleira þess háttar. Að sjálfsögðu gerist það að leikmenn nái ekki þeim árangri sem þeir ætluðu sér með ferðalaginu, stundum er ekki næg geta til staðar eða t.d. heimþrá gerir vart við sig, ástæðurnar geta verið margvíslegar. Svona ummæli dæma sig hinsvegar  að öllu leyti sjálf, við eigum að vera stolt af þeim leikmönnum sem reyna, hver svo sem niðurstaðan verður. Það eitt að reyna sýnir að menn vilja leita á slóðir þar sem enn sterkara íshokkí er spilað og bæta þar með getu sína. Þegar þeir snúa heim aftur mun þessi reynsla þeirra í flest öllum tilvikum koma íslensku hokkí til góða.
 
HH