Lyfjamál

Í gær var haldinn fundur Lyfjaráðs og Lyfjaeftirlitsnefndar ÍSÍ. Til fundarins var m.a. boðuð sérsambönd ÍSÍ, þar á meðal ÍHÍ. Umfjöllunarefnið var nýjar alþjóða lyfjareglur, sem gefnar eru út af WADA, sem taka gildi nú um áramót og hvaða áhrif þær hafa á lyfjaeftirlitið.

Meðal þess helsta sem kom fram á fundinum er að í nýjum reglum eru tvö lykilhugtök, staðfesta og sveigjanleiki.

Sem dæmi um staðfestu má nefna að þeir íþróttamenn sem sannað þykir að hafi haft einbeittan brotavilja varðandi þessi mál geta nú átt á hættu að verða dæmdir í fjögurra ára bann við fyrsta brot. Refsingar geta þó orðið vægari þegar um er að ræða lyf sem hægt er að sýna fram á að bæti ekki árangur íþróttamannsins. 

Sem dæmi um sveigjanleika má nefna ef íþróttamaðurinn getur sýnt fram á að efnin hafa veirð tekin af vangá en einnig verður möguleiki á að milda refsingu liggi játningar fyrir eða gefi viðkomandi upplýsingar sem leiða til sakfellingar.

Ýmsar fleiri nýjungar eru í þessum nýju reglum og munum við fjalla nánar um þær þegar nær dregur gildistöku þeirra.

HH