Lyfjadómur.

Eins og sjá mátti í flestum fjölmiðlum landsins var leikmaður í íshokkí dæmdur í tveggja ára bann frá öllum íþróttum, æfingum jafnt sem keppni, vegna notkunar á ólöglegum lyfjum. Stjórn ÍHÍ hefur ályktað um lyfjamál og þar segir m.a.

"Stjórn ÍHÍ fordæmir fortakslaust og mjög harðlega alla notkun ólöglegra lyfja í íþróttum. Íþróttamenn sem freistast þannig til að kaupa sér árangur sýna af sér vítavert dómgreindarleysi og setja svartan blett á íshokkíhreyfinguna alla, ekki síst á sín eigin félög. Stjórn ÍHÍ styður heilshugar öflugt starf Lyfjaeftirlitsnefndar ÍSÍ og mun leggja sig fram við það að aðstoða og hvetja hreyfinguna til þess að losa sig við þessa óværu."

Einnig má geta þess að í áramótapistli mínum ræddi ég þá skaða sem leikmenn geta gert íþróttinni en þar segir m.a.

"Eitt af því sem við þurfum að passa okkur á er að bera virðingu fyrir íþróttinni okkar. Við getum ekki ætlast til þess að þeir sem eru iþróttinni ókunnugir beri fyrir henni virðingu ef við gerum það ekki sjálf. Leikmenn þurfa einnig að bera virðingu fyrir þeim félögum sem þeir leika með og varast að gera eitthvað það sem valdið getur þeim skaða. Menn þurfa því að vera í stöðugri sjálfskoðun og líta í eigin barm."

Stjórn ÍHÍ mun ræða á næsta stjórnarfundi ræða hvort hægt sé að grípa til ráðstafana til að minnka enn líkur á að hlutir sem þessi gerist.

HH