Luxemborg - Armenia & Tyrkland - Írland

Tveir leikir fóru fram á heimsmeistaramótinu í kvöld. Í fyrri leiknum mættu Armenar liði Luxemborgar. Þetta var merkilegur leikur vegna þess hve kaflaskiptur hann var.   Lið Armena virtist alveg steindautt í fyrsta leikhluta algjörlega áhugalaust og greinilega ekki búið að jafna sig eftir ósigurinn gegn íslendingum. Lið Luxemborgar lék á alls oddi og náði fljótlega góðri forustu. Staða var orðin 3-0 eftir tæplega 11 mínútna leik. Armenar settu eitt mark á Luxemborg á 12. mínútu en Luxemborg svaraði með marki fyrir lok fyrsta leikhluta. Staðan 4 - 1 eftir fyrsta leikhluta. Í upphafi 2. leikhluta eða þegar 21:09 var liðin af leiknum skoraði Luxemborg 5. mark sitt en Armenar svöruðu með 2. marki sínu þegar 21:54 voru liðnar. Armenar voru nú farnir að skauta meira höfðu greininlega gaman af að spila og voru búnir að gleyma vonbrigðunum frá kvöldinu áður. Svo gerðist það sem ekki á að geta gerst í íshokkí. Armenar skora þrjú mörk á innan við 90 sekúndum og breyttu stöðunni úr 5 - 3 í 5 - 6. Svo líða enn nokkrar mínútur og svo endurtaka Armenar leikinn. Skora tvö mörk á 12 sekúndna kafla og bæta því þriðja við 1 mínútu og 7 sekúndum síðar! Armenar unnu sem sagt annan leikhlutann með sjö marka mun 1-8. og staðan í leiknum var orðin 5 - 9.  Í 3. leikhluta hægir á leiknum aðeins og Luxemborg fer að huga betur að varnarleiknum hjá sér. Hvort lið skoraði eitt mark Armena á 54:24 en Luxemborg svarar á 58:07. Niðurstaðan 6 - 10.   Seinni leikurinn var mjög skemmtilegur en þar mættu Tyrkir Írum. Írar mættu vel stemmdir til leiks og má segja að þetta sé í fyrsta skiptið í þessu móti sem liðið sýnir hvað í sér býr. Þeir spiluðu af skynsemi, settu sína bestu menn á móti bestu línu Tyrkjanna og héldu þeim niðri. Tyrkjum tókst þó að skora á sjöundu mínútu leiksins og var staða 1 - 0 eftir fyrsta leikhluta. Í öðrum leikhluta var leikurinn í járnum og liðin sóttu á víxl. Írum tókst að jafna með einföldu en mjög fallegu marki á 30 mínútu. Staðan 1 - 1 eftir tvær lotur. Í upphafi 3. leikhluta taka Írar svo forustu með góðu marki, var þar að verki leikmaður Íra #3 Simon Kitchen sem hefur vakið athygli fyrir hvað hann er lipur á skautunum þrátt fyrir að vera afskaplega stór og stæðilegur náungi. Írar reyndu svo að verjast til loka en lentu í vandræðum vegna brottvísana og þegar aðeins tvær og hálf mínúta var til loka tókst Tyrkjum að jafna á power play en áður nefndur Kitchen sat þá í boxinu, eins og reyndar hann gerði nokkuð mikið í þessum leik. Leiknum lauk með jafntefli 2 - 2.