Liðið komið á hótel í S-Kóreu

Strax eftir gullleikinn gegn Kínverjum var haldin stutt verðlaunaafhending áður við drifum okkur í rútuna og héldum út á flugvöllinn.  Við flugum að þessu sinni beint til Auckland og gistum þar á mjög góðu hóteli áður en við héldum áfram til Seúl í S-Kóreu.  Ferðalagið hefur allt gengið mjög vel hingað til.  Við höfum hrellt leigubílaskutlur og langferðabifreiðar með okkar mikla farangri en allt án teljandi vandræða.

Við sluppum við alla yfirvikt þegar við tékkuðum okkur inn í Auckland enda strákarnir orðnir þrautþjálfaðir í blekkja vigtirnar með því að skáskjóta töskunum og jafnvel halda aðeins undir endann á þeim ef þörf krefur.

12 klukkustunum og 5 - 6 bíómyndum síðar lentum við hér í S-Kóreu og gistum á Soul Royal Hótel í miðborginni í nótt.  Alls fékk liðið 20 herbergi en hluti herbergjanna var með tveimur rúmum og strákarnir hafa því færst sig saman að einhverju leyti - þeim finnst ekkert fínt að vera einir í herbergi og vilja helst para sig saman.

Frá flugvellinum á hótelið var um klukkutíma rúntur og óhætt að segja að blandan í rútinni hafi verið athyglisverð.  Þar var hokkíliðið fyrirferðamikið, 20 fölir hokkíleikmenn í stuttbuxum og hlýrabolum (það var 20 stiga hiti í Nýja Sjálandi), einhverjir Kóreubúar og svo slatti af hörundsdökkum síðskeggjuðum Indverjum með stóra túrbana á toppstykkjunum.   Töskurnar okkar voru svo auðvitað tékkaðar alla leið til London en hér í Seul er 10 gráðu frost... og við á stuttbuxunum.

Við létum þó kuldan ekki á okkur fá og fórum í göngutúr í borginni og svipuðumst aðeins um en hlupum svo allir heim á hótel áður en við frusum í hel.  Það er ræs kl. 09:00 í fyrramálið og rúta á flugvöllin kl. 10:00 - en hér í Kóreu erum við 9 klst á undan Íslandi.