Léttur sigur í öðrum leik mótsins: Ísland 4 - Kínverska Taipei 0

Strákarnir sigurreifir í leikslok.  Ljósmynd Gunnar Jónatansson
Strákarnir sigurreifir í leikslok. Ljósmynd Gunnar Jónatansson

Ísland bar sigurorð af liði kínverska Taipei í dag í öðrum leik liðsins á heimsmeistaramóti karla U20 sem fram fer í Laugardalnum.  Íslenska liðið var betri aðilinn allan leikinn og vann nokkuð örugglega 4 – 0 og máttu gestirnir prísa sig sæla að munurinn varð ekki meiri.

Leikurinn var hins vegar frekar rólegur og ekki sami hraðinn og í gær.  Þrátt fyrir nokkra yfirburði okkar manna var markalaust eftir fyrstu lotu og fyrsta markið leit ekki dagsins ljós fyrr enn á 5. mínútu 2. lotu þegar Axel Orongan skoraði eftir stoðsendingu frá Einari Grant.  10 mínútum síðar skoraði Gunnar Arason og jók muninn í 2 – 0 og aftur var það Einar Grant sem lagði upp markið.

Snemma í 3. lotu skoraði svo Einar Grant sjálfur og breytti stöðunni í 3 – 0 eftir sendingu frá Gunnari Arasyni og skömmu fyrir leikslok skoraði Bjartur Gunnarsson fjórða og síðasta markið óstuddur.

Verðskuldaður og nokkuð auðveldur sigur okkar manna en á morgun á liðið kærkomið frí.  Einar Grant var atkvæðamikill í leiknum en  Maksymilian Mojzyszek markvörður íslenska liðsins hélt markinu hreinu og það er víst ekki hægt að fara fram á meira en það, glæsileg frammistaða enda var hann í leikslok valinn maður leiksins.   Hann fékk á sig 21 skot á meðan við skutum 53 þremur skotum á gestina sem segir nokkuð um yfirburðina.

Næsti leikur verður á fimmtudaginn kl. 17:00 og að þessu sinni verða mótherjarnir Tyrkir og næsta víst að það verður spennandi leikur.