Leikurinn við Tæland, sýnd veiði en alls ekki gefin

Ólafur Baldvin Björgvinsson í miklum sóknarham á HM Div2B í Nýja Sjálandi 2025
Ólafur Baldvin Björgvinsson í miklum sóknarham á HM Div2B í Nýja Sjálandi 2025

Í dag, seinni part föstudags, hér á Nýja Sjálandi lék Ísland við Tæland í fyrsta skipti í karlaflokki á HM.  Þrátt fyrir að landslið Tælands hafi ekki náð að sigra neina leiki það sem af er móti þá voru þeir síður en svo auðveldur andstæðingur.  Landslið Tælands mætti með það yfir höfði sér að ef þeir mundu ekki ná að vinna leikinn við Ísland, þeir falla niður í næstu deild fyrir neðan - þaðan sem þeir komu upp úr eftir fínan árangur á síðasta ári.

Fyrsta lota byrjaði mjög svipað og aðrar fyrstu lotur í þessu móti hjá Íslandi.  Eftir all nokkrar þreyfingar og einhvern slatta af refsimínútum á báða bóga virtist íslenska liðið vera að ná taktinum sínum í leiknum en samt ekki.  Varnar og sóknartilburðir voru af skornum skammti og oft mátti litlu muna að tælenska landsliðið næði að skora í markið þar sem Helgi Ívarsson stóða á milli stanganna og í ströngu oft á tíðum.  Fyrsta leikhluta lauk án þess að liðin næðu að skora.

Eftir ærlegt tiltal frá hinum danska aðalþjálfara, Martin Struzinski, í leikhléi batnaði leikur íslenska liðsins nokkuð en samt ekki nægilega.   Þar sem íslendingar brutu af sér í lok fyrstu lotu byrjaði lið Tælands manni fleiri fyrstu mínútur annars leikhluta.   Hin bandaríski/tælenski leikmaður Nick Lampson nýtti tækifærið sem fékk í hendurnar nokkuð vel þegar tæp mínúta var liðin af öðrum leikhluta og skorði fyrsta mark Tælands gegn Íslandi í þessum fyrsta leik liðanna á HM.  Þegar lotan var komin inn á áttundu mínútu náði Viggo Hlynsson að jafna leikinn fyrir Ísland með fyrirtaks marki á yfirtölu, leikur liðsins var allur batnandi.  Ekki var Adam lengi í paradís því að þegar lotan var komin yfir miðbik náði Tæland aftur yfirhöndinni og aftur var það mark á yfirtölunni.  Refsivandræði héldu áfram að plaga íslendinga í lotunni.  En svo gerðist það, einsog fyrir galdur, að spilamennska Íslands fór að “ganga á öllum stimplum” og heldur æstust leikar þegar Unnar Rúnarsson vann pökkinn í okkar varnarsvæði, skautaði upp allan ísinn og skorði ansi laglegt mark með léttu “milli-fóta-trixi” þegar við vorum manni færri.  Stuttu síðar áttu þeir Unnar Rúnarsson, Viggó Hlynsson og Jóhann Már Leifsson afar laglegt samskil sem lauk með því að Jóhann Már skaut í mark Tælands, út við stöng, og kom Íslandi yfir fyrsta skipti í leiknum.  Staðan því 2 - 3 fyrir Íslandi þegar liðin gengu til búningsklefa eftir aðra lotu.

Í upphafi þriðja leikhluta héldu refsivandræði Íslands áfram og snemma í lotunni fengu tælendingar gullið tækifæri til að jafna leikinn þegar við misstum tvo leikmenn í boxið með nokkura sekúndna millibili. En okkar strákar náðu að verjast þessari sókn afar vel og ekkert mark var skorað á þessari tvöföldu yfirtölu hjá Tælandi. Þeir náðu hinsvegar að skora þegar rétt rúmar fjórar mínútur voru liðnar af lotunni og jafna leikinn þar með 3 - 3.  En rétt einsog í annari lotunni hrökk liðið í flottan gír og lék við hvurn sin fingur Unnar Rúnarsson skoraði svo aftur á yfirtölu með stoð frá Jóhanni Má.  Jóhann Már skoraði svo stuttu síðar með stoð frá Kristjáni Hróari Jóhannssyni.  Staðan í leiknum þá orðin 3 - 5 fyrir Íslandi og leikur liðsins orðin einsog hann á að sér að vera.

Landslið Tælands virtist á þessum tímapunkti orðið bensínlaust, enda spila lang mest á 2 línum allt mótið, og okkar strákar gengur á lagið og áttu nokkrar fínar sóknir og vörðust vel.  Tælendingar freistuðu þess að minnka muninn þegar lítið lifði lotunnar með því að taka út markmanninn sinn og bæta við sóknarmanni en hinn títt nefndi Unnar Rúnarsson komst inn í sóknar sendingu hjá þeim, kom pekkinum laglega yfir á línufélaga sinn Viggó Hlynsson sem sendi pökkinn í tómt mark Tælands og breytti stöðunni í 3 - 6 fyrir Íslandi.

Erfiður sigurleikur fyrir okkar stráka en verðskuldaður sigur.

Ólafur Baldvin Björgvinsson var valinn maður leiksins hjá íslenska liðinu

Texalýsing leiksins er hér -> https://www.iihf.com/en/events/2025/wmiib/gamecenter/playbyplay/63296/11-tha-vs-isl

Á morgun spilar landslið Íslands sinn síðasta leik á mótinu á móti heimamönnum Nýja Sjálandi og hefst sá leikur kl.20:00 að staðartíma (eða kl.08:00 að morgni laugardagins 3. maí). Uppselt á leikinn og það hafa gengið auglýsingar í útvarpi hér í borginni þannig að búist er við húsfylli og mikilli stemmningu.

Hægt er að horfa á leikinn í beinu streymi á iihf.tv