Leikur kvöldsins.

Leikur kvöldsins er að þessu sinni leikur Skautafélags Akureyrar og Bjarnarins og fer hann fram í Skautahöllinni á Akureyri og hefst klukkan 19.00. Leikur þessi er sá fyrsti í hrinu þriggja leikja sem fram fer á næstu sjö dögum en í þeim ræðst hvaða lið spila til úrslita í meistaraflokki karla þetta árið. Baráttan hefur því sjaldan verið jafn hörð og nú er það ekki aðeins hvert stig sem skipti máli heldur gæti það endað með því að hvert mark skipti máli.

En að leiknum. Liðin hafa leikið sjö leiki á Íslandsmótinu og hafa norðanmenn í SA unnið fimm þeirra, þar af einn á gullmarki, á meðan Bjarnarmenn hafa unnið tvo. Lengi vel hafa SA-menn haft gott tak á Bjarnarmönnum en þegar á leið tímabilið fóru leikir liðanna að verða jafnari. ´

Eitthvað er um meiðsl og þá sérstaklega í liði SA. Ingvar Þór Jónsson hefur kennt sér meins í hendi og Gunnar Darri Sigurðsson og Sigurður Óli Árnason hafa verið frá. Hjá Bjarnarmönnm eru hinsvegar allir heilir.

Bjarnarmenn munu reyna sitt besta til að halda sér frá refsiboxinu enda hafa norðanmenn verið iðnir við að skora mark einum fleiri. Á móti munu SA-menn ekki vilja hleypa hraðanum í leiknum of mikið upp heldur halda leiknum á sínu tempói.

Áhorfendur geta því átt von á góðri skemmtun og ástæða til að fjölmenna á leikinn. Við hin sem komust ekki munum fylgjast með honum í netlýsingu á www.ihi.is.

Myndina tók Sigurgeir Haraldsson.

HH