Leikur kvöldsins - umfjöllun.

Í kvöld hófst úrslitakeppni íslandsmótsins í íshokkí með leik Skautafélagsmanna úr Reykjavík sem öttu kappi við Skautafélagsmenn frá Akureyri. Þessi sömu lið áttust við um síðustu helgi og þá má segia að norðanmenn úr SA hafi fengið háðulega útreið frá sunnanmönnum. Í kvöld var annað upp á teningnum því SA-menn gerðu sér lítið fyrir og sigruðu SR-inga á þeirra eigin heimavelli í Laugardalnum. Leikurinn endaði 2 - 5 og segja má að úrslit þessi hafi komið nokkuð á óvart. SR-ingar hófu leikinn reyndar betur og settu fyrstu tvö mörkin í fyrsta leikhluta og voru þar að verki Stefán Hrafnsson og Daniel Kolar. Mörkin voru í ódýrari kantinum og svo virtist sem markmaður þeirra norðanmanna, Ómar Smári Skúlason, hafi verið nokkuð þjakaður af taugaspennu til að byrja með.
Fljótlega eftir að annar leikhluti hófst minnkuðu gestirnir í SA-muninn og var þar að verki Jón B. Gíslason en hann fór mikinn í sóknarleik gestanna einsog svo oft áður. Ekkert meira var skorað í annarri lotu og því sáu áhorfendur fram á spennandi síðustu lotu enda nokkuð jafnræði með liðunum og leikurinn gat því farið á hvorn veginn sem var.
Þegar rúmlega tvær mínútur voru liðnar af þriðju lotu jafnaði Tomas Fiala metin fyrir gestina og fimm mínútum síðar kom Elvar Jónsteinsson þeim yfir í fyrsta skipti í leiknum. SR-ingar reyndu hvað þeir gátu að sækja og jafna leikinn en við það opnaðist vörn þeirra og áður en yfir lauk höfðu þeir Jón B. Gíslason og Tomas Fiala bætt við sitthvoru markinu. Lokatölur urðu því einsog áður sagði 2 - 5 SA-mönnum í vil og er ekki annað hægt en að hrósa þeim fyrir að hafa tekið sig saman í andlitinu eftir vægast sagt dapra frammistöðu um síðustu helgi. Segja má að leikurinn hafi verið góð byrjun á úrslitakeppninni og að þrátt fyrir að SR-ingar hafi unnið deildina með 10 stiga mun þá telur það lítið í þessari keppni. Næsti leikur er á fimmtudaginn kemur og þá koma aftur inn í lið SR-inga þeir Gauti Þormóðsson og Todd Simpsson, og munar um minna.

Mörk/stoðsendingar SR:

Stefán Hrafnsson 1/0
Daniel Kolar 1/0
Mirek Krivanek 0/1

Brottrekstrar/fjöldi: 24 mín/7

Mörk/stoðsendingar SA:

Jón B. Gíslason 2/1
Tomas Fiala 2/1
Elvar Jónsteinsson 1/0
Jón Ingi Hallgrímsson 0/1
Steinar Grettisson 0/1

Brottrekstrar/fjöldi: 8 mín/4