Leikur kvöldsins

Úr síðasta leik liðanna á Akureyri                                                                  Mynd: Sigurgeir Haraldsson

Leikur kvöldsins að þessu sinni er leikur Jötna og Skautafélags Reykjavíkur í meistaraflokki karla. Leikurinn fer fram á Akureyri og hefst klukkan 20.00.

Nú styttist í að U20 ára landslið Íslands haldi til Nýja-Sjálands en áður en að því kemur verða leiknir þrír leikir í meistaraflokki karla. Þar mun koma nokkuð vel í ljós hvernig leikmenn koma undan jólafríinu.

Jötnar áttu síðasta leik fyrir jól þegar þeir léku gegn Birninum en þeim leik lauk með nokkuð öruggum sigri Bjarnarsins sem gerði 6 mörk gegn 2 mörkum Jötna. Síðasti leikur Jötna gegn SR-ingum var hinsvegar í byrjun desember og fór sá leikur fram í Laugardalnum. Að loknum venjulegum leiktíma var jafnt á með liðunum en SR-ingar tryggðu sér aukastigið með marki frá Daniel Kolar í framlengingunni. Jötnar ætla því án nokkurs vafa að reyna að endurtaka leikinn og ná stigi eða stigum af SR-ingum. 

SR-ingar hafa sótt um félagaskipti fyrir Pétur Maack sem lék fyrri hlutann af þessu tímabili í Svíþjóð en er SR-ingum að góðu kunnur. Ekki liggur ljóst fyrir hvort leikheimild verður komin fyrir leik en Pétur mun án nokkurs vafa styrkja lið SR-inga. SR-ingar ætla sér öll stigin í leiknum í kvöld enda baráttan á topnum hörð og hvert einasta stig skiptir máli.

HH