Leikur kvöldsins

Leikur kvöldsins er leikur Bjarnarins og Skautafélags Reykjavíkur. Leikurinn fer fram í Egilshöll og hefst klukkan 19.15. Segja má að leikurinn marki upphaf að stuttum síðari parti íslandsmótsins í meistaraflokki karla, enda einungis einnn og hálfur mánuður í úrslitakeppni. Með sigri í kvöld gæti Björninn farið að sýna hinum liðunum að ekki megi afskrifa liðið alveg strax úr úrslitakeppninni. SR-ingar vilja hinsvegar hafa sigur enda myndi það styrkja stöðu þeirra á toppnum.
Ævar Þór Björnsson markmaður SR-inga er í leikbanni í kvöld og er það skarð fyrir skildi. En maður kemur í manns stað og Daníel Freyr Jóhannsson mun verja mark SR-inga í hans stað. Ekki hefur enn borist  leikheimild fyrir Egil Þormóðsson en enginn vafi er á því að endurkoma hans mun styrkja SR-liðið sóknarlega. Síðar í dag mun koma í ljós hvort Agli verður heimilt að spila eður ei. Arnþór Bjarnason er enn að jafna sig af meiðslum en að því frátöldu er ekki annað vitað en að allir leikmenn liðanna séu heilir heilsu.

HH