Leikur kvöldsins

Í kvöld klukkan 19.00 að staðartíma leik lið Skautafélags Reykjavíkur og Skautafélags Akreyrar í skautahöllinni í Laugardal. SR-ingar hafa undanfarnar vikur verið í efsta sætinu en ekki má mikið út af bregða til að akureyringar nái að komast upp fyrir þá. Með sigri í kvöld væru SA-menn orðnir þremur stigum á eftir SR-ingum og ættu leik til góða.

Eitthvað er um meiðsli og forföll í báðum liðum. Hjá SA eru sem fyrr Jón B. Gíslason og Josh Gribben fjarverandi eins og áður. Hjá SR-ingum er líka eitthvað um meiðsli og veikindi. Arnþór Bjarnason og Steinar Páll Veigarsson eru fjarverandi í kvöld og líklegast einnig Þorsteinn Björnsson. Hinsvegar er Gunnlaugur Karlsson mættur aftur í vörnina þannig að maður kemur í manns stað.

En hvað sem líður fjarvistum einstakra leikmanna þá mæta liðin staðráðin í að gera sitt besta svo hægt á að vera að lofa spennandi leik í kvöld.

Myndina tók Sigurgeir Haraldsson

HH